Gunnar sló óvart í gegn á TikTok: „Þetta er alveg út í hött“

Gunnar Þór varð sló óafvitandi algjörlega í gegn á TikTok …
Gunnar Þór varð sló óafvitandi algjörlega í gegn á TikTok en myndband og myndir af honum á miðlinum er með átta og hálfa milljón áhorfa og 27 þúsund athugasemdir. Ljósmynd/Dino Serrao

Gunnar Þór Nilsen, tökustaðarstjóri og ljósmyndari, vissi ekki hvert hann ætlaði þegar tvítug dóttir hans benti honum á að myndband af honum væri farið á gríðarlegt flug á samfélagsmiðlinum TikTok, honum algjörlega að óvörum. Myndbandið fyrrnefnda sýnir ljósmyndir af Gunnari Þór og myndband af honum eftir götuljósmyndarann Dino Serrao en yfir átta milljónir hafa nú horft á myndbandið og hátt í 29 þúsund manns hafa bætt athugasemd sinni við það. 

Eru langflestar athugasemdirnar mjög jákvæðar og er þar útliti og fasi Gunnars Þórs hrósað óspart. 

„Ég veit ekki alveg hvernig ég á að höndla þetta,“ viðurkenndi Gunnar Þór léttur í lundu í samtali við blaðamann K100.is en hann lýsir sjálfum sér sem frekar jarðbundinni týpu sem eyðir litlum tíma inni á samfélagsmiðlum og pælir yfirleitt lítið í útliti sínu.

Ljósmynd/Dino Serrao

„Tekur örugglega tvö ár að lesa þær allar“

„Myndarlegasti maðurinn er sá sem veit ekki hversu myndarlegur hann er“, „Hversu fallegur maður“, „Hvernig bæti ég honum í innkaupakörfuna mína“„Ég held þú hafir fundið raunverulegan guð“, „Þór er orðinn að næstu ofurfyrirsætu Bandaríkjanna“ eru meðal athugasemdanna sem sjá má við myndbandið.

„Það tekur örugglega tvö ár að lesa þær allar. Þetta er svo fáránlega mikið,“ segir Gunnar sem er afar ringlaður yfir allri athyglinni þó að hann viðurkenni að hún hafi ekki haft neikvæð áhrif á sjálfsmyndina enda alltaf gaman að heyra fólk segja fallega hluti um mann. Honum fyndist þetta þó einnig dálítið truflandi. Hann segist þó hafa hlegið mjög mikið af mörgum athugasemdunum sem væru margar bráðfyndnar.

„Þetta er svolítið mikið að kyngja á einum og hálfum sólarhring,“ segir Gunnar og bætir við að þó að athygli á samfélagsmiðlum sé eitthvað sem margir sækist eftir væri það alls ekki eitthvað sem hann sjálfur gerði.

Ekki alltaf að ota sínum tota

„Ég er ekkert alltaf að ota mínum tota. Mér finnst bara fínt að fá að vera í friði,“ segir hann og hlær en hann viðurkennir að hann hafi fengið ótrúlegt magn af vinabeiðnum og skilaboðum frá konum hvaðanæva að úr heiminum eftir að myndbandið birtist.

„Þetta er alveg út í hött,“ segir Gunnar.

Ljósmynd/Dino Serrao

„Ég held að það sé bara allt þetta hár,“

Gunnar segir að myndatakan sjálf hafi átt sér stað í grennd við Sólheimajökul þar sem hann var með nokkra ferðamenn í einkaleiðsögn, sem er eitt af þeim verkefnum sem hann tekur stöku sinnum að sér, en þá gekk fyrrnefndur ljósmyndari, Dino Serrao, að honum og spurði hann hvort hann mætti taka af honum ljósmyndir, líkt og kemur fram í myndbandinu vinsæla. Þetta samþykkti Gunnar, en hann segist vera reglulega stoppaður af ferðamönnum og beðinn um myndir þegar hann tekur að sér leiðsöguverkefni.

„Ég held að það sé bara allt þetta hár,“ útskýrir Gunnar. „Ég er að vinna með að leyfa hárinu að vaxa sem frjálsast því ef ég ætti að fara að klippa mig og halda hárinu stuttu væri þetta aðeins of dýrt því það vex svo hratt á mér hárið,“ bætir hann við kíminn.

Auðveldara að bera fram nafnið Þór

Gunnar kynnti sig fyrir Serrao, að venju, með seinna nafni sínu, Þór, en hann segir töluvert auðveldara fyrir útlendinga að bera fram seinna nafnið heldur en það fyrra. Hann segir þó að því fylgi yfirleitt einhvers konar viðlíking við þrumuguðinn Þór úr norskri Goðafræði, vafalaust þeirri útgáfu sem er hvað þekktust úr ofurhetjumyndum Marvel – og kennir þar hárinu um.

Þrumuguðinn Þór kemur oft til tals þegar Gunnar Þór hittir …
Þrumuguðinn Þór kemur oft til tals þegar Gunnar Þór hittir erlenda ferðamenn á Íslandi. Hér er Chris Hemsworth í hlutverki Þórs í Marvel mynd um guðinn/ofurhetjuna. Ljósmynd/Marvel

Nafnið Þór virðist einnig hafa vakið sérstaka athygli á TikTok en ljósmyndarinn sjálfur vísar einmitt í þetta í lýsingunni á myndbandinu þar sem hann spyr: „Hverjar eru líkurnar á því að nafnið hans sé Þór?!“ og bætir við þekktu þrumu-tjákni og vísar þannig augljóslega í fyrrnefndan þrumuguð.

Ráðlagt að nýta tækifærið

Gunnar segist vera búinn að leita ráða hjá vinum sínum sem hafa meiri reynslu og þekkingu á samfélagsmiðlasviðinu en margir hafa ráðlagt honum að nýta þetta tækifæri og segja honum jafnvel að reyna að búa til einhvers konar atvinnu úr þessu.

„Ég veit ekki alveg hvort ég sé týpan í að taka upp myndbönd af sjálfum mér allan daginn og búa til efni,“ viðurkennir Gunnar sem yfirleitt eyðir litlum tíma á samfélagsmiðlum. 

Nóg að gera við að setja í þvottavél

„Ég er ekki læstur við þetta alla daga, að fylgjast með hvað allir eru að gera. Ég hef alveg nóg að gera sjálfur bara að setja í þvottavél og svona,“ bætir hann við og hlær.

Hann segist vera mjög ánægður við þann stað sem hann er á í lífi og starfi og að sér líði best á bak við myndavélina að sýna Ísland en hann starfar, eins og áður kom fram, meðal annars í kvikmyndaiðnaðinum sem tökustaðarstjóri.

Ljósmynd/Dino Serrao

Spurður út í það hvort hann sjái fyrir sér einhverja framtíð tengda þessum nýfundnu vinsældum útilokar hann ekki neitt en svarar sjálfur með spurningu.

„Ég get ekki svarað öðru en: Hvernig endar þetta? Hvar endar þetta? Er maður bara að fara að dofna smám saman og verða svona dægurfluga, eða eitthvað „one hit wonder“. Eða er raunverulega að fara að vera einhver áhugi á því að ég deili myndum af mér og syni mínum að veiða eða eitthvað,“ spyr Gunnar.

„Nú verður maður bara að meta stöðuna um hvað skal gera næst – og ef ég segi alveg eins og er hef ég ekki hugmynd um það,“ segir hann.

„Þetta verður að hafa eitthvað náttúrulegt flæði. Ég hef engan áhuga á að hafa símann á lofti og taka myndir af sjálfum mér alla daga. Ég er einhvern veginn ekki alveg þar,“ segir Gunnar að lokum.

Hér má sjá myndbandið umtalaða þar sem Gunnar Þór er í aðalhlutverki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert