Sagði Sigmund hafa ætlað að „krýna sig sjálfan“

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flóttamannamál voru umfangsmikil í fyrstu ræðum á Alþingi í dag. Gerði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, þar athugasemdir við að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra væri ekki að taka nógu hart á málaflokknum og að stefna Sjálfstæðisflokksins væri á vinstri jaðrinum miðað við það sem þekktist í Danmörku í málefnum flóttafólks.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, var aftur á móti á öndverðu meiði og spurði félags- og vinnumálaráðherra  út í ákvörðunina um að flytja fatlaðan hælisleitenda úr landi þegar hann biði þess að mál sitt væri tekið fyrir í héraðsdómi.

Sagði ályktun Sjálfstæðisflokksins hafa getað flogið í gegn hjá Samfylkingunni

Sigmundur sagði það hafa reynst vestrænum þjóðum mjög erfitt að vísa fólki úr landi. Þannig hefðu t.d. Norðurlöndin flest ákveðið að takast á við þetta og reynt að hindra það að fólk leiti beint til landsins til að sækja um, heldur reyni að sækja frekar um annars staðar. Sagði hann Íslendinga hafa farið í þveröfuga átt og að hér hafi verið komið upp bætt í seglana við að fá fólk hingað til landsins.

Spurði Sigmundur svo Jón hvað stæði til að gera til að draga úr þessum hvötum og vísaði til ályktunar á nýliðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Sagðist hann t.d. ekki geta metið það hvort ályktun þingsins hefði komið frá Sjálfstæðisflokknum eða Samfylkingunni. „Ályktun Sjálfstæðisflokksins hefði flogið í gegn á landsfundi Samfylkingarinnar. Flokkurinn virðist vera að elta ekki bara samstarfsflokka í ríkisstjórn heldur hluta af stjórnarandstöðunni líka,“ sagði Sigmundur.

Unnið að breytingum á viðmiðum vegna fólks frá Venesúela

Jón kom í pontu og sagði að verið væri að reyna að draga úr þessum seglum. Nefndi hann endurframlagt útlendingafrumvarp í þeim efnum, en bætti við að áfram yrðu áskoranir í þessum málaflokki. Sagði hann óvenju hátt hlutfall fólks koma frá Venesúela á grundvelli niðurstöðu kærunefndar útlendingamála. Sagði Jón að unnið væri að því að breyta þeim viðmiðum sem væru til staðar þannig að þau væru í takt við önnur Evrópulönd. Með því yrði Ísland ekki „með þennan umframsegul í sínu kerfi.“

Sagði hann ályktanir Sjálfstæðisflokksins jafnframt mjög skýrar „Þær grundvallast á mannúð, sem snýr að samningi Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn, og síðan mjög ströngum reglum um það hvernig við ætlum að fylgja verndarkerfinu eftir og vinna sem hraðast úr þeim málum sem á okkar borð koma.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur „ósáttur við það hversu fast við erum að stíga til jarðar“

Sigmundur gagnrýndi á ný stefnu Sjálfstæðisflokksins í málinu og spurði hvort að engin breyting yrði á útlendingamálum undir stjórn Jóns. Sagði hann að hér ríkti stjórnleysi og þótt að reynt hafi verið að koma þyngri ályktunum gegnum landsfundinn hjá Sjálfstæðisflokkinum þá hafi það ekki tekist.

Jón skaut til baka á Sigmund þegar hann kom í annað skiptið í pontu og sagðist átta sig á því að Sigmundi væri mikið niðri fyrir í þessum málaflokki. Hann „og er sennilega ósáttur við það hversu fast við erum að stíga til jarðar. Hann hafði ætlað að krýna sig sjálfan eitthvað í þeim efnum,“ sagði Jón og bætti við að aðkallandi væri að bregðast við með breytingum á útlendingalöggjöfinni.

„Hvernig réttlætir félagsmálaráðherra að fötluðum manni hafi verið sparkað úr landi?

Andrés Ingi kom síðar í pontu og spurði Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, um brottvísun fatlaðs manns þegar aðeins 11 dagar væru í að mál hans yrði tekið fyrir hjá dómstólum. „Hvernig réttlætir félagsmálaráðherra að fötluðum manni hafi verið sparkað úr landi gagngert til að koma í veg fyrir að hann geti sótt réttlætið fyrir dómstólum?“ spurði Andrés Ingi.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi sagði að hann hefði áður gagnrýnt hvernig staðið væri að þessari framkvæmd. „Ég hef gagnrýnt að það hafi ekki verið bifreið sem gæti flutt hinn fatlaða einstakling þannig að ekki þyrfti að taka hann úr hjólastólnum sem er hans leið til að komast á milli staða. Þar er vitnað þá í m.a. 15. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að sýna mannvirðingu og gæsku. Ég hef líka gagnrýnt það eða sett við það spurningarmerki hvort réttindagæslumaður hefði frekar átt að vera á staðnum heldur en að eingöngu væri rætt við hann í síma,“ sagði hann.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson. mbl.is/Eggert

Bætti Guðmundur Ingi því svo við að þótt það hafi verið niðurstaða Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála að senda fólkið aftur, þá væri hins vegar ekki allt eins og best væri á kosið í Grikklandi. „Við vitum hins vegar öll að það eru ýmsir þröskuldar í Grikklandi sem er ekki hægt að horfa fram hjá. Þegar ég er spurður hvort það sé eitthvað sem réttlæti það að hafa tekið fatlaðan einstakling til að senda hann úr landi þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar og kærunefndarinnar að gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert