Hlaut hvatningarverðlaun dags gegn einelti

Ásmundur Einar og Eliza afhenda Írisi Hrund verðlaunin í Helgafellsskóla …
Ásmundur Einar og Eliza afhenda Írisi Hrund verðlaunin í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ. Ljósmynd/Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íris Hrund Hauksdóttir, náms- og starfsráðgjafi í Hólabrekkuskóla, hlaut í dag hvatningarverðlaun dags gegn einelti við athöfn í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ og tók við þeim úr hendi Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, og Elizu Reid forsetafrúar.

Dagur gegn einelti var fyrst haldinn árið 2011 til vitundarvakningar og sem hvatning til alls samfélagsins að vinna gegn einelti, kemur fram í fréttatilkynningu. Heimili og skóli sér um umsýslu dagsins. Samtökin hafa hvatt skóla til að standa fyrir fræðslu, viðburðum eða táknrænum atburðum sem hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu í tilefni dagsins.

Samstarf heimila og skóla lykilatriði

„Með sérstökum degi helguðum baráttu gegn einelti sköpum við fordæmi fyrir samfélagið og hvetjum til reglulegrar fræðslu og umræðu um einelti og afleiðingar þess,“ er þar haft eftir Ásmundi Einari. „Einelti er mikil meinsemd og getur haft langvarandi áhrif á þau sem verða fyrir því. Öflugt og virkt samstarf heimila og skóla er lykilatriði til árangurs,“ segir ráðherra enn fremur.

Í umsögn fagráðs gegn einelti hjá Menntamálastofnun segir um verðlaunahafa ársins:

„Íris Hrund Hauksdóttir er faglegur leiðtogi innan skólans sem vinnur markvisst að vellíðan, gleði og velferð allra nemenda. Hún hefur einstakt lag á að ná til nemenda á faglegan og lágstemmdan hátt. Markviss forvarnarvinna sem byggir upp ánægða og sjálfsörugga nemendur hefur verið hennar meginviðfangsefni og hún vinnur leynt og ljóst í anda farsældarlaganna þar sem áherslan er ávallt lögð á velferð barna.

Íris Hrund hefur komið á og stýrt forvarnateymi skólans og var með þeim fyrstu til að koma slíku teymi á fót. Íris leiðir eineltisteymi skólans og stýrir fundum nemendaverndarráðs af fagmennsku og öryggi. Alla daga vinnur Íris með nemendum skólans, hefur opið hús og hvetur nemendur til að koma til sín hvort sem þeir vilja spjalla, ræða erfið mál eða setja sér markmið til framtíðar. Það sem einkennir Írisi Hrund umfram allt er góð nærvera, fagmennska og hvernig hún brennur fyrir velferð og hagsmunum barna,“ segir í umsögn ráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert