Kópavogsbær lækkar fasteignagjöld

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri segir fjárhagsáætlun ársins 2023 endurspegla ábyrgan rekstur …
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri segir fjárhagsáætlun ársins 2023 endurspegla ábyrgan rekstur og rétta forgangsröðun þar sem álögum og gjöldum sé stillt í hóf. Samsett mynd

Kópavogsbær lækkar fasteignagjöld á næsta ári til að koma til móts við gríðarlega hækkun fasteignamats. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2023 sem lögð var fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag.

Segir í fréttatilkynningu Kópavogsbæjar um fjárhagsáætlunina að almenn fasteignagjöld muni að meðaltali fylgja verðlagsþróun næsta árs, en ekki hækka um tug prósenta vegna fasteignamatshækkana. Lagt er til að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækki úr 0,2 prósentum í 0,17 og fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði úr 1,44 prósentum í 1,42. Önnur fasteignagjöld lækka, að undanskildu sorphirðugjaldi sem hækkar vegna aukinna útgjalda við sorphirðu og sorpeyðingu.

Muni Kópavogur leggja sitt af mörkum til að ná verðbólgu niður og liðka fyrir gerð kjarasamninga. Þannig muni gjaldskrár ekki hækka í samræmi við miklar kostnaðarhækkanir, heldur í samræmi við forsendur fjárlaga.

Áhersla á grunnþjónustu

Ráðgert er að rekstrarniðurstaða samstæðunnar verði jákvæð sem nemur 83 milljónum króna og niðurstaða A-hluta verði jákvæð um 30 milljónir. Veltufé frá rekstri er áætlað ríflega fjórir milljarðar króna á samstæðu bæjarins.

Hyggjast bæjaryfirvöld leggja áherslu á að efla grunnþjónustu bæjarins með áherslu á mennta- og velferðarmál. Hins vegar beri fjárhagsáætlunin svip af krefjandi efnahagsumhverfi og óvissu í kjaramálum enda kjarasamningar á almennum og opinberum vinnumarkaði lausir á næsta ári.

Hyggst Kópavogur ráðast í hagræðingaraðgerðir sem nema 230 milljónum króna á næsta ári en sú upphæð nemur um hálfu prósenti af heildarútgjöldum samstæðunnar. Verða stærstu fjárfestingar komandi árs bygging Kársnesskóla og nýs leikskóla þar samhliða. Eins stendur markvisst viðhald fasteigna bæjarins fyrir dyrum og umbætur í loftgæðum stofnana bæjarins.

Viðbótarfjármagn í velferðarþjónustu

„Áætlun ársins 2023 endurspeglar ábyrgan rekstur og rétta forgangsröðun þar sem álögum og gjöldum er stillt í hóf og þjónusta við bæjarbúa er í forgangi,“ er haft eftir Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra í fréttatilkynningunni. Ráðist verði í nauðsynlegar hagræðingar en vörður staðinn um grunnþjónustu bæjarins.

„Við leggjum áherslu á að leysa mönnunarvanda á leikskólum bæjarins og verða markviss skref stigin á árinu til að bæta starfsumhverfi. Þá verður boðið upp á heimgreiðslur fyrir foreldra sem ekki fá leikskólapláss við tólf mánaða aldur. Lagt verður til viðbótarfjármagn í velferðarþjónustu en þjónusta við fatlað fólk er stórlega vanfjármögnuð af hálfu ríkisins og mikilvægt að ná niðurstöðu í þeim efnum hið fyrsta,“ segir bæjarstjóri enn fremur.

Gert er ráð fyrir að íbúum Kópavogs fjölgi um 2,17 prósent verði þeir orðnir 40.729 í lok ársins 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert