Leggur til rannsóknarsetur öryggis- og varnarmála

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Njáll Trausti Friðbersson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mælti í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsóknasetur öryggis- og varnarmála á Alþingi. 

Tillagan snýr að því að fela utanríkisráðherra að hafa forgöngu um gerð samnings við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál.

Meðflutningsmenn á tillögunni eru Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokksins. 

Lagt er til að fjárveiting frá ríkinu fylgi stofnun setursins til að tryggja tvö stöðugildi með samningi við utanríkisráðuneytið. 

„Á setrinu verði stundaðar rannsóknir sem nýtast á hagnýtan og fræðilegan hátt fyrir þá sem undirbúa og taka ákvarðanir um hernaðarlegt og borgaralegt öryggi. Setrið verði fræðilegur og hagnýtur samstarfsvettvangur þeirra sem standa að samhæfingarstöð um almannavarnir auk öryggisdeilda einkarekinna fyrirtækja,“ segir enn fremur í greinagerðinni. 

Lagt er til að rannsóknarstjóri verði ráðinn sem fari með stjórn setursins og að starfið verði auglýst og ráð gert fyrir að setrið hafi aðstöðu í húsnæði Alþjóðamálastofnunar. 

„Setrið beiti sér fyrir útgáfu efnis á íslensku og ensku, standi að opinberum fyrirlestrum og málþingum, eitt eða í samvinnu við aðra. Að tillögunni samþykktri verði veitt fé á fjárlögum ársins 2023 til að stíga megi fyrstu skref til að undirbúa samning utanríkisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar HÍ um [rannsóknarsetur um öryggis- og varnarmál].“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert