Vill „IKEA-leiðina“ í Reynisfjöru

Ferðamenn í kröppum dansi í Reynisfjöru fyrir nokkrum árum.
Ferðamenn í kröppum dansi í Reynisfjöru fyrir nokkrum árum. mbl.is/RAX

Áhugamaður um öryggismál hefur birt myndskeið á YouTube þar sem hann bendir á það sem betur má fara þegar varað er við hættunni sem getur skapast fyrir ferðamenn í miklu brimi í Reynisfjöru í Vík í Mýrdal.

Banaslys hafa orðið þar þegar stórar öldur hafa hrifið fólk með sér á haf út. Erlendur ferðamaður lést þar í júní síðastliðnum. Vonir standa til að nýtt viðvörunarkerfi með nýjum skiltum verði sett þar upp á næstunni í stað þeirra sem fyrir eru, en vinnan hefur dregist mjög á langinn.

Þórður Bogason, ökukennari og slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður í Reykjavík, fór í Reynisfjöru í nokkra daga um mánaðamótin september/október og fylgdist með fólkinu sem þangað kom.

„Það voru örfáir sem stoppuðu og horfðu á skiltin. Langflestir litu þangað í eina sekúndu en mjög fáir stöldruðu við og lásu á þetta,“ segir Þórður, en skiltin eru við stíg sem liggur að fjörunni. „Göngustígurinn er breiður og þarna er mikið af fólki. Þú ert ekkert að veita þessu athygli,“ bætir hann við og leggur til „IKEA-leiðina“, eins og hann kallar hana, fyrir ferðamennina. Þeir komist ekki inn á ströndina nema að sjá skilti almennilega með stóru letri, líkt og þegar fólk er leitt í gegnum verslunina IKEA.

Þórður nefnir að sumir fari aðra leið að fjörunni frá bílastæðunum en eftir stígnum, auk þess sem margir gestir séu á einkabílum en ekki hluti af hópi þar sem leiðsögumenn vara þá við hættunni.

Skilti eru einnig hjá bílastæðunum en Þórður telur ekki marga gefa þeim gaum því á sama tíma séu þeir að leita að bílastæðum.

Þórður Bogason.
Þórður Bogason.

„Þó að ég sé bara leikmaður í þessu finnst manni skrítið að það skuli ekki vera betri stýring að skiltunum, eins og þegar maður kemur að kassanum í búð. Þar er rammað í kringum þig eitthvað sem þau vilja að þú takir eftir.“

Skiltin þakin límmiðum 

Jafnframt bendir hann á að skiltin sem núna eru uppi eru þakin límmiðum sem fólk hefur límt á þau og að í myrkri, þegar ferðamenn eru enn á svæðinu, er erfitt að sjá á óupplýst skiltin.

„Það væri frábært ef menn ætla að drífa þetta upp áður en einhver slasast,“ segir hann um nýja viðvörunarkerfið sem beðið hefur verið eftir, en undrast samt þá töf sem hefur orðið á uppsetningunni.

Þórður fór aftur í Reynisfjöru á laugardaginn var í miklu hvassviðri, sat þar á steini í innan við hálftíma og fylgdist með fólkinu. „Fólk er mikið að taka myndir og gleymir sér. Svo læðist aldan aftan að því....á meðan er kvikindið að undirbúa sig að ráðast á það.“

Þórður kveðst einnig velta fyrir sér af hverju lítið gjald er ekki tekið af ferðamönnum í sjálfvirku greiðsluhliði sem hægt væri að nota til að ráða eins konar strandvörð í fjöruna. „Einn maður í vinnu með dómaraflautu sem yrði á trítli að reka fólk frá,“ segir hann og bætir við. „Þó ekki væri nema á rauðum dögum [þegar ölduhæðin er hvað mest].“

„Fólk áttar sig ekki á flóði og fjöru. Fólk er ekki með Ísland á hreinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert