Andlát: Stefán Skarphéðinsson

Stefán Skarphéðinsson.
Stefán Skarphéðinsson. Ljósmynd/Aðsend

Stefán Skarphéðinsson, fyrrverandi sýslumaður, lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Akranesi, 8. nóvember síðastliðinn. Hann var sjötíu og sjö ára að aldri.

Stefán fæddist í Reykjavík 1. apríl 1945. Foreldrar hans voru Erla Kristín Egilson hattameistari, f. á Patreksfirði 1924, d. 2010 og Skarphéðinn Kr. Loftsson lögregluvarðstjóri, f. í Arnarbæli á Fellsströnd 1922, d. 2001.

Systir Stefáns var Guðrún Lofthildur, f. 1949, d. 1982. Systir Stefáns samfeðra er Katrín Dóra Valdimarsdóttir, f. 1957.

Stefán ólst upp í Reykjavík. Lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1967 og embættisprófi í lögfræði 1975. Héraðsdómslögmaður varð hann 1980.

Stefán var skrifstofustjóri hjá Sölu varnarliðseigna frá 1975-1977. Það ár flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til Patreksfjarðar og tók við starfi fulltrúa hjá sýslumanni Barðastrandarsýslu og sinnti því til ársins 1980. Hann rak eigin lögmannsstofu á Patreksfirði frá 1980-1982 uns hann var skipaður sýslumaður Barðastrandarsýslu. Árið 1994 var hann skipaður sýslumaður í Borgarnesi og gegndi embættinu til ársloka 2014 þegar hann lét af störfum sökum aldurs. Hann bjó í Borgarnesi til dauðadags.

Stefán gegndi fjölda trúnaðarstarfa allt frá skólaárum. Ritstjóri Vöku var hann 1968-1969, framkvæmdastjóri Sambands ungra sjálfstæðismanna 1973-1974 og í stjórn Orators 1968-1969. Hann var einn af forvígismönnum undirskriftasöfnunarinnar Varins lands 1974, sat í hreppsnefnd Patrekshrepps 1978-1994, oddviti sýslunefndar Austur-Barðastrandarsýslu 1982-1986 og Vestur-Barðastrandarsýslu 1982-1988. Hann sat í stjórn Eyrarsparisjóðs 1982-1991, þar af formaður 1988-1991. Hann átti sæti í Dómarafélagi Íslands 1986-1988 og stjórn Sýslumannafélags Íslands um langt árabil, m.a. sem formaður tvívegis. Hann sat í undirbúningsnefnd um byggingu Breiðafjarðarferju og síðar byggingarnefndar. Þá sat hann í valnefnd Lögregluskóla ríkisins í 10 ár. Stefán var lengi félagi í Lions. Hann var umdæmisstjóri Lions á Íslandi (109b) 2004-2005. Stefán gekk í Frímúrararegluna á Íslandi 1977 og gegndi trúnaðarstörfum á vettvangi hennar.

Eftirlifandi eiginkona Stefáns er Ingibjörg Ingimarsdóttir, f. 1949. Þau eiga fjögur börn; Þórunni Erlu, f. 1971, Kristínu Maríu, f. 1974, Ásgerði Ingu, f. 1979 og Stefán Einar, f. 1983. Sonur Stefáns af fyrra sambandi er Arnþór Haraldur, f. 1966.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert