„Samfélagsmein sem við verðum að uppræta“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson á fundinum í morgun.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Næsta vor hefst vinna við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar gegn ofbeldi. Hún verður borin undir Alþingi og er von á þingsályktunartillögu vegna hennar haustið 2023 eða vorið 2024. Í áætluninni verður meðal annars lögð áhersla á að huga betur að ofbeldi gagnvart viðkvæmum hópum, sérstaklega eldra fólki og fötluðu fólki.

Einnig verður hugað að gerendum og þolendum ofbeldis á meðal fólks af erlendum uppruna og að þeir viti af þeirri þjónustu sem er í boði.

Þetta kom fram í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, á landssamráðsfundi um aðgerðir gegn ofbeldi í morgun. Meginþemu fundarins voru ofbeldi meðal barna og ungmenna og þverfaglegt samráð gegn heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi sagðist vilja tryggja að fjármagn fylgdi nýju aðgerðaáætluninni og kallaði ofbeldi „samfélagsmein sem við verðum að uppræta“

Hann taldi upp ýmsa vinnu sem hefur verið í gangi hjá ráðuneyti hans gegn ofbeldi og nefndi að 70% aðgerða sé lokið í tengslum við þingsályktunartillögu sem var samþykkt árið 2019 um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi. Sú áætlun innihélt 30 aðgerðir og byggðist á vakningu, viðbrögðum og valdeflingu.

Nýtt verklag í mótun fyrir lögregluna

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri flutti erindi um afbrotavarnir á meðal ungmenna í viðkvæmri stöðu. Hún sagði að alltof lengi hafi verið litið á það sem gekk á innan veggja heimilis sem einkamál fjölskyldu. Það hafi sem betur fer breyst.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á fundinum í morgun.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Björk benti á að um 40% mála sem koma til barnaverndar eru tilkynnt af lögreglunni. Lögreglan hafi því gegnt lykilhlutverki en að skýrt verklag hafi vantað fyrir lögregluna á landsvísu varðandi samstarf við lykilaðila sem vinna með börnum. Verklag hafi verið í mótun undanfarið bæði með sveitarfélögum og fleiri aðilum sem verður kynnt síðar.

„Enginn einn mun stöðva ofbeldið í samfélaginu,“ sagði hún. Til þess þurfi samfélag sem vinnur þétt saman sem grípur fólk sem misstígur sig og hjálpar fólki við að komast út úr erfiðum aðstæðum.

Karl Steinar Valsson (í miðjunni), yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.
Karl Steinar Valsson (í miðjunni), yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert