Áfram gæsluvarðhald í hryðjuverkamáli

Sveinn Andri Sveinsson er verjandi annars hinna grunuðu.
Sveinn Andri Sveinsson er verjandi annars hinna grunuðu. Ljósmynd/Aðsend

Tveir menn, sem grunaðir eru um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk hér á landi í haust, voru úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald rétt í þessu, til 24. nóvember. Að sögn Sveins Andra Sveinssonar, verjanda annars mannanna, hafa þeir báðir kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar.

Hafa mennirnir nú setið í gæsluvarðhaldi í sjö vikur, síðan í september, en eins og mbl.is greindi frá í gær er hámarkstími gæsluvarðhalds án þess að ákæra líti dagsins ljós tólf vikur.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sagði í samtali við fréttavefinn í gær að ágæt framvinda væri í rannsókninni en þó „svolítið eftir“.

mbl.is