Biðlistar eftir aðgerðum lengjast

Frá Landspítalanum.
Frá Landspítalanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðalbiðtími eftir algengum skurðaðgerðum hefur lengst það sem af er ári, samkvæmt samantekt embættis landlæknis. Segir á heimasíðu embættisins að ljóst sé að enn bíði of margir lengur en viðunandi teljist í flestum aðgerðarflokkum.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segir í skriflegu svari til Morgunblaðsins að þetta skýrist að mestu leyti af heimsfaraldri Covid-19. Heilbrigðisráðuneytið sé að kortleggja stöðuna og skipuleggja þjónustuna.

„Einnig er viðamikil mönnunargreining í gangi innan ráðuneytisins og verið að bregðast við manneklu heilbrigðiskerfisins á ýmsan hátt. Meðal annars með því að fjölga nemum í heilbrigðistengdum greinum og huga að starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólksins,“ segir í svarinu.

En þarf ekki að ræsa alla tiltæka á dekk til að bjarga þessu?

„Það er rétt að allir þurfa að hjálpast að við að stytta biðlista eftir aðgerðum. Ráðuneytið hefur kallað eftir upplýsingum frá öllum þjónustuveitendum um getu og áhuga til að fjölga aðgerðum til að stytta biðlista. Margar stofnanir vinna á fullum afköstum nú þegar m.t.t. mönnunar og legurýma. Sjúkratryggingar Íslands eru í viðræðum við ýmsa þjónustuaðila um ýmsar aðgerðir. Meðal annars hefur nýverið verið gerður samningur um skurðaðgerðir á augasteinum og unnið er að samningum um kviðsjáraðgerðir vegna greiningar og meðferðar tengdum kvensjúkdómum, þ.m.t. endómetríósu.

Ráðuneytið hefur unnið markvisst að því að auka samtal milli stofnana óháð rekstrarformi. Samvinna milli aðila er lykilatriði í því að nýta mannauðinn og þá þekkingu sem til er í landinu til þess,“ segir ráðherra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert