Netverslun á fleygiferð á Degi einhleypra

Dagur einhleypra verður sífellt vinsælli á meðan netverja.
Dagur einhleypra verður sífellt vinsælli á meðan netverja. AFP

„Þessir stóru alþjóðlegu viðskiptadagar, Single´s Day, Svartur föstudagur og Cyber Monday hafa verið að koma gífurlega afgerandi inn sem miklir viðskiptadagar í anda jólanna,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Dagur einhleypra (Single´s Day) hófst á miðnætti þar sem fólk getur verslað allskonar vörur á netinu með góðum afslætti.

„Stærri og stærri hluti af svokallaðri jólaverslun færist á þessa daga því á netinu standa til boða gífurlega hagstæð kjör,“ bætir Andrés við, spurður út í daginn.

Sem hlutfall af heildarveltu á netinu í nóvember nam Dagur einhleypra 11,4% í fyrra og er hann stærri en bæði Svartur föstudagur og Cyber Monday.

Tölfræði varðandi söluna í ár er að vænta frá Rannsóknarsetri verslunarinnar í byrjun desember.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Andrés segir netverslun hafa sótt í sig veðrið þótt hún sé enn tiltölulega lítið hlutfall af almennri verslun. Í Evrópu nemur netverslun um 15% af heildarsölunni en því hefur verið spáð að netverslun verði um 30% innan landa ESB árið 2030. „Þetta er allt á fleygiferð,“ segir hann og nefnir að þrír flokkar skeri sig mest úr í netverslun, eða raftæki, föt og húsgögn.

Dreifist á lengri tíma

Andrés bendir á að fyrir tíu árum hafi meirihluti jólaverslunarinnar farið fram í desember og jafnvel síðustu daga fyrir jól en að með tilkomu þessara þriggja nýju verslunardaga hafi hún dreifst á mun lengri tíma en áður.

Allt komi þetta sér vel fyrir neytandann sem vill nýta þessi góðu kjör með því að kaupa jólagjafir fyrir jólin tímanlega eða einfaldlega versla fyrir sjálfan sig.

mbl.is