Tvítug á milli flogs og aðgerðar

Una Torfadóttir barðist við krabbamein aðeins tvítug að aldri en …
Una Torfadóttir barðist við krabbamein aðeins tvítug að aldri en eftir aðgerð og meðferð er það horfið. mbl.is/Ásdís

Una Torfadóttir er að skapa sér nafn með sérstakri tónlist sem hún semur sjálf og syngur. Una greindist með krabbamein í heila fyrir rúmum tveimur árum og segir það kraftaverk að sér sé batnað. Hún segir veikindin hafa styrkt sig og þroskað en reynsluna nýtir hún í listinni og lífinu sjálfu.

Hugsaði um mömmu og pabba

„Ég fékk flog 19. júní 2020 en hafði ekki fundið fyrir neinum einkennum fyrir þann tíma. Það var farið með mig beint upp á spítala þar sem ég var send í sneiðmyndatöku og fannst þá æxli í heilanum, tveir sentimetrar í þvermál minnir mig. Þá var bókuð heilaskurðaðgerð sex dögum síðar,“ segir Una.

Spurð um hvaða hugsanir hafi kviknað við þessar skelfilegu fréttir segir Una:

„Ég hugsaði: aumingja mamma og pabbi. Ég hugsaði hversu erfitt þetta yrði fyrir þau. Ég var svolítið í auga stormsins. Ég upplifði algjört valdaleysi yfir aðstæðum, en jafnframt æðruleysi. Það var ekkert sem ég gat gert annað en halda áfram að lifa lífinu. En fyrir aðstandendur sjúklinga getur þetta verið svo tilfinningalega erfitt og fólk er stöðugt að hugsa hvað það geti gert, en um leið þarf það að sætta sig við að það geti ekki bjargað mér. Ég veit að þetta var ótrúlega erfitt verkefni fyrir foreldra mína og verð þeim ævinlega þakk­lát og öllum sem stóðu með mér í þessu,“ segir hún.

Una er að vekja eftirtekt með tónlist sinni.
Una er að vekja eftirtekt með tónlist sinni.

Tvítugsafmæli einu sinni á ævi

„Ég átti einmitt tvítugsafmæli á milli flogs og aðgerðar. Og við héldum sko heljarinnar veislu skal ég segja þér! Ég á afmæli 23. júní og við keyptum kökur og ég var með tvo kjóla til skiptanna í veislunni. Við fjölskyldan erum svo mikið teymi; þegar eitthvað bjátar á þá stöndum við þéttar saman. Maður á bara tví­tugsafmæli einu sinni á ævinni og ekki ætlar maður að sleppa því að halda upp á það!“ 

Ítarlegt viðtal er við Unu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert