Telur ekki að stofnuninni hafi orðið á mistök

Íris Kristinsdóttir, sviðsstjóri verndarsviðs.
Íris Kristinsdóttir, sviðsstjóri verndarsviðs. Skjáskot RÚV

Embættismaður hjá Útlendingastofnun segist ekki telja að stofnuninni hafi orðið á mistök þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd voru sendir til Grikklands á dögunum og mikið hefur verið um fjallað í fjölmiðlum hérlendis. 

Íris Kristinsdóttir, sviðsstjóri verndarsviðs Útlendingastofnunnar, var í viðtali í Silfrinu á RÚV í dag og var þar spurð hvort gerð hafi verið mistök. 

„Nei við teljum okkur ekki hafa gert mistök með þessari ákvörðun en þessir einstaklingar eru með sín mál fyrir dómstólum núna. Við erum bundin af dómafordæmum hér á landi. Hver sem sú niðurstaða verður þá þurfum við að fylgja þeirri niðurstöðu,“ sagði Íris en benti einnig á að kærunefnd útlendingamála hafi staðfest þessa ákvörðun. 

Íris segir mat stjórnvalda á Íslandi hafi verið að ekki sé brot á mannréttindasáttmála Evrópu að senda einstakling til Grikklands og það mat hafi verið staðfest af dómstólum á Íslandi. 

Þegar einstaklingar sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi en eru þegar með vernd í öðru landi, þ.e. Grikklandi, þá sé almenna reglan sú að fjalla ekki efnislega um ástæðu þess að viðkomandi flúði heimalandið að sögn Írisar. Heldur tekur stofnunin þá eingöngu til umfjöllunar ástæður þess að sá einstaklingur telur sig ekki geta dvalið í Grikklandi.

Hún bætti við að flóttamannakerfið sé fyrst og fremst hugsað sem neyðarkerfi fyrir fólk sem óttast um líf sitt og öryggi. Íris sagði að áður en einstaklingar séu sendir til Grikklands þurfi að liggja fyrir að þeirra bíði ekki aðstæður sem teljist ómannúðlegar. Einnig þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum hvers og eins til að kanna hvort aðstæður sé það sérstakar að viðkomandi einstaklingur fái að dvelja hér á landi. 

Að mati Írisar er mat á aðstæðum hvers eins umsækjanda mjög ítarlegt og þar hafi margir þættir vægi þegar metið er hvort viðkomandi eigi að fá efnislega meðferð á Íslandi þegar viðkomandi er með vernd í Grikklandi. 

mbl.is