Krafðist þess ekki að hætt yrði við blaðamannafund

Katrín Jakobsdóttir og Björk Guðmundsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir og Björk Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Samsett

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hvatti Björk Guðmundsdóttur tónlistarkonu ekki til þess að hætta við blaðamannafund ásamt aðgerðarsinnanum Gretu Thunberg þar sem þær ætluðu að krefjast yfirlýsingar um neyðarástand í loftslagsmálum. 

Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi. 

Björk gagnrýndi Katrínu fyr­ir að hafa hætt við að lýsa yfir neyðarástandi í lofts­lags­mál­um árið 2019.

Björk lýsti því yfir í viðtali við Rúv að Katrín hafi hvatt Björk og Gretu til að hætta við blaðamannafund þar sem stjórnvöld yrðu krafin um yfirlýsingu. 

Í svari við fyrirspurn Jóhanns Páls segir að í samskiptum forsætisráðherra við Björk kom fram að til stæði að skora opinberlega á forsætisráðherra Norðurlanda að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.

„Forsætisráðherra hvatti ekki til þess að hætt yrði við slíkt en upplýsti um að þessi mál hefðu verið og væru til umræðu við ríkisstjórnarborðið.“

„Engin fyrirheit voru gefin um formlega yfirlýsingu

Í svarinu segir að í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York 23. september 2019, þar sem forsætisráðherra átti að flytja ræðu, barst ráðherra erindi með smáskilaboðum frá Björk.

Katrín svaraði samdægurs og síðan ræddust þær við í síma í framhaldi af því. Tekið er fram að Katrín átti aldrei í samskiptum við Gretu. 

Í samskiptum ráðherra við Björk Guðmundsdóttur kom fram að Björk teldi mikilvægt að forsætisráðherra lýsti í ræðu sinni yfir neyðarástandi í loftslagsmálum af hálfu Íslands og Norðurlanda. Af hálfu ráðherra kom fram að hún myndi ræða málið við samráðherra sína en engin fyrirheit voru gefin um formlega yfirlýsingu.

Þá segir að Katrín hafi ekki gefið nein fyrirheit um að vænta mætti formlegrar yfirlýsingar af hálfu ráðherra, ríkisstjórnar eða Alþingis um neyðarástand í loftslagsmálum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert