Verið að „drepa fólk næstum því“ í Hafnarfirði

Á stæðinu fyrir utan þetta hús í Hafnarfirði stendur bifreið …
Á stæðinu fyrir utan þetta hús í Hafnarfirði stendur bifreið með bilað þjófavarnakerfi sem er að gera suma nágranna jafn bilaða segir einn þeirra. mbl.is/Arnþór

„Ég bý í blokk sem er full af mjög veiku fólki, bæði líkamlega og andlega,“ segir maður sem setti sig í samband við mbl.is og óskaði nafnleyndar í því viðtali sem hér fer á eftir. Hann býr í „öryrkjablokk á vegum Hafnarfjarðar“ og segir stefna í alvarlegan heilsubrest hjá sér vegna svefnleysis síðustu nætur.

Hafi bifreið með bilaða þjófavörn í nágrenninu valdið íbúum í blokkinni hans rúmruski um nætur en þjófavörnin fari í gang í tíma og ótíma og kveði rammt að, að sögn viðmælanda mbl.is. Stefni í varanlegt heilsutap hjá honum vegna erfðasjúkdóms er þyngir honum.

„Og enginn sem býr í blokkinni hefur náð að sofa neitt undanfarnar nætur. Þetta stefnir allt í varanlegan heilsumissi. Ég hef ekki sofið nokkrar nætur í röð út af þessu vandamáli, og ég er í hættu á að fá verri fötlunareinkenni fyrir lífstíð, af því ég er með erfðafræðilegan sjúkdóm sem verður varanlega verri ef ég fæ ekki svefn nokkrar nætur í röð,“ segir íbúinn frá.

„Er ekki hægt að draga bílinn í burtu?“

„Einnig veldur taugasjúkdómurinn minn mér miklum þjáningum og ég er ekki viss um að ég muni geta lifað þær af mikið lengur,“ segir hann enn fremur og kveður ástandið óþolandi. Kveðst viðmælandinn hafa ítrekað hringt í lögreglu í þeirri von að knýja mætti þennan hvimleiða hávaða til kyrrðar, það hafi nágrannar hans í blokkinni einnig gert.

„Lögreglan hefur mætt á staðinn nokkrum sinnum en það hefur ekki haft nein áhrif á vandamálið. Hugsanlega er eigandi bílsins í útlöndum, ég veit það ekki, og þess vegna nær lögreglan aldrei að tala við hann, og þá yppa lögregluþjónarnir öxlum og segja „þetta er ekki mitt vandamál lengur“,“ segir maðurinn og bætir því við að honum heyrist sem símsvaranda lögreglunnar sé orðið verulega í nöp við hann eftir ítrekuð símtöl.

„Af hverju láta þeir ekki bara draga bílinn í burtu? Fyrst hægt er að draga bíl fyrir að leggja vitlaust, af hverju er þá ekki hægt að draga bíl fyrir að drepa fólk næstum því? Einnig, ef lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þverneitar að draga bílinn er líka hægt að senda viðgerðarmann til að aftengja þessa gölluðu þjófavörn,“ segir íbúi í Hafnarfirði í öngum sínum.

Sjálfsagt að hafa samband á kristilegum tíma

Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri í Hafnarfirði, segir við mbl.is að hann sjái í kerfinu hjá sér tvær tilkynningar nú í nótt vegna bílsins, aðra upp úr miðnætti og hina á sjöunda tímanum í morgun.

„Það er hringt hingað klukkan 00:49 og tilkynnandi segir að þetta hafi gerst ítrekað síðustu daga. Farið á vettvang og þá er þjófavörnin ekki í gangi. Dyrabjöllu er hringt og eins hringt í síma eiganda bílsins án árangurs. Þetta er skráð klukkan tvö og svo er aftur hringt vegna bílsins klukkan 06:50,“ segir varðstjórinn.

Ekki hafi náðst í eigandann og í raun geti lögregla þá varla gert meira að sinni. „Það hefur svo sem gerst áður að þjófavarnakerfi í bílum fari í gang óumbeðið, það geta verið bilanir og alla vega. Ég sé ekki að þetta hafi verið tilkynnt oftar en þessi tvö skipti í nótt en jú, það kemur fram í tilkynningunni að þetta hafi verið að gerast síðustu daga,“ segir hann enn fremur.

„Auðvitað má velta fyrir sér hvort við eigum að halda áfram daginn eftir, á kristilegum tíma, að reyna að ná í fólk. Það er kannski eðlilegt að fólk svari ekki í símann um hánótt, við getum alveg tekið það á okkur og reynt að ná sambandi við manninn áfram, það er minnsta málið,“ segir Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri í Hafnarfirði, af biluðu þjófavörninni í Engjahlíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert