Alvarleg staða varðandi framboð á heitu vatni á Íslandi

Hera segir að mögulega þurfi Veitur að bregðast við með …
Hera segir að mögulega þurfi Veitur að bregðast við með því að skerða afhendingu til stórnotenda ef það kemur langt kuldaskeið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alvarleg staða er komin upp í málefnum hitaveita á Íslandi. Áætlaðir toppar í heitavatnsnotkun gætu náð hámarki vinnslugetu nýtingarsvæða og jafnvel farið yfir þau mörk á næstu árum. Ef það koma lengri kuldaskeið gæti hugsanlega þurft að grípa til skerðinga til heimila, atvinnulífs eða þjónustu. Þetta er grafalvarlegt mál og ekki er útséð hvernig það verður leyst. 

Þetta kom fram í máli Almars Barja, fagsviðsstjóra Samorku, á opnum fundi samtakanna um málefni hitaveitna, stöðu jarðhitaauðlindarinnar og forðamála sem fór fram í Hörpu í morgun.

Á fundinum ræddu m.a. fulltrúar þriggja hitaveitna um stöðuna eins og hún blasir við í dag, þau Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og þróunar hjá OR, Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri Selfossveitna, og Hjalti Steinn Gunnarsson, fagstjóri hitaveitu Norðurorku.

Notkun aukist umfram fjölgun íbúa

Um 60% af allri orku sem notuð er hérlendis er heitt vatn til húshitunar og annarrar neyslu. Það er tvöfalt meiri orka en framleidd er af rafmagni. Notkun á heitu vatni hefur aukist milli ára umfram fjölgun íbúa í landinu og þrátt fyrir ýmsar framfarir sem ætlað var að að draga úr notkuninni.

Ljóst er að heitt vatn á Íslandi er ekki ótakmörkuð auðlind og er stærsta vandamál hitaveitna í dag að viðhalda framboði í takt við vöxt samfélagsins.

Fulltrúarnir þrír sem tóku til máls á fundinum voru á sama máli um nauðsyn þess að fræða Íslendinga í þeim tilgangi að auka orkunýtni. Snjallmælar hafa gefið góða raun en með þeim geta íbúar fylgst með notkun sinni mánaðarlega í stað þess að fá árlegan reikning. Innleiða þarf slíka tækni á fleiri svæði. 

Þá voru fulltrúarnir einnig sammála um nauðsyn þess að bora þyrfti á fleiri svæðum. Það ferli væri þó afar kostnaðarsamt og getur þar að auki tekið mörg ár að afla leyfa, rannsaka, leggja niður lagnir og koma borholum í notkun, ef það kemur þá heitt vatn úr þeim – sem er ekki gefið þrátt fyrir að rannsóknir lofi góðu. 

Sundlaugar gætu lokað tímabundið

Veðurfar hefur gríðarmikil áhrif á eftirspurn en harðir vetur með löngum kuldaskeiðum gætu leitt til þess að Veitur þurfi að bregðast við með því að loka sundlaugum eða skerða til stórnotenda, að sögn Heru Grímsdóttur.

Hún segir frekari varmavinnslu og bætta nýtingu nauðsynlega til að mæta eftirspurn næstu ára, annars eigi Íslendingar í hættu á að þurfa að leita annarra lausna sem ekki eru jafn umhverfisvænar, til að mæta orkuþörfinni.

Eins og staðan er í dag er bætt nýting og lághitasvæði þó bestu orkuöflunarkostirnir.

Íbúum fjölgað um 40%

Í sveitarfélaginu Árborg hefur íbúum fjölgað um 40% frá árinu 2014 en á þeim tíma hafa Selfossveitur borað sjö vinnsluholur og virkjað sex, þar af tvær á þessu ári. Fjárfestingar veitunnar á árunum 2014 til 2021 námu um 2,9 milljörðum en fjárfestingaráætlun ársins 2022 gerir ráð fyrri 1,1 milljarði og fjárfestingaráætlun 2023 stefnir sömuleiðis í 1 milljarð.

Sigurður Þór Haraldsson segir nauðsynlegt að virkja meira til að mæta aukinni þörf en í dag sé verið að ganga á lághitasvæðin. Mikilvægt sé að dreifa álaginu betur. Hann segir gríðarlega stórt og kostnaðarsamt verk framundan og spyr hvort ekki sé kominn tími til að stjórnvöld komi aftur að borðinu eins og í olíukreppunni á áttunda áratug síðustu aldar.

Hann segir mjög mikla uppbyggingu framundan mjög víða og að þörf sé á breytingum. Það muni að öllum líkindum leiða til hækkunar á gjaldskrá. Slíkt væri þó hægt að útfæra með þeim hætti að hafa hana tvískipta, þ.e. að grunnkyndiþörf væri ódýrar en allt umfram það væri kostnaðarsamara. Gæti það hvatt til sparnaðar á orkunotkun.

Snefilmagn af sjó komið í kerfið

Hjalti Steinn Gunnarsson segir mikilvægt að auka rannsóknarfé til muna en í janúar hafi komið í ljós að snefilmagn af sjó sé komið í helsta jarðhitakerfi Norðurorku á Hjalteyri svo það kerfi þolir ekki mikið meiri álag til næstu ára. Til skamms tíma verður hægt að ganga harðar að öðrum svæðum en nauðsynlegt er að virkja ný svæði.

Rannsóknir hafa þó staðið yfir í Eyjafirðinum lengi án þess að skila miklu. Enn eru svæði sem lofa góðu og hægt er að rannsaka betur en það er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt. 

Hann segir nú mikilvægt að fræða íbúa og hvetja til meiri orkunýtni. Heita vatnið sé takmörkuð auðlind og íbúar þurfi að haga sér í samræmi við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert