Ljóst að gæðunum sé verulega misskipt

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir ljóst að þó að umsvif ferðaþjónustunnar á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og Austurlandi séu töluvert minni en á öðrum svæðum á landinu þá beri að varast að lesa um of í rekstrartekjuskiptingu eftir landshlutum.

„Þetta er mjög misskipt á milli landshluta – umsvifin í ferðaþjónustu. Það er ekki spurning.“

Í nýlega uppfræðum tölum í mælaborði ferðaþjónustunnar eru rekstrartekjur í ofangreindum landshlutum sláandi lágar á síðasta ári. 

Til dæmis séu rekstrartekjur á Norðurlandi eystra 21.122,2 milljónir króna en 1.719,4 miljónir króna í Norðurlandi vestra. 

Tölurnar ekki endilega lýsandi

Skarphéðinn segir ómögulegt að draga ályktanir af birtum rekstrartekjum á milli landshluta á mælaborði ferðaþjónustunnar, vegna þess að flest fyrirtæki séu skráð með heimilisfesti í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu en með umsvif víða um land. 

Spurður hvert hlutverk Ferðamálastofu sé í að dreifa betur ferðamönnum um landið og eflingu þeirra plássa sem sækja vilja fleiri ferðamenn segir Skarphéðinn að mikilvægast sé samstarf við áfangastaðastofur landshlutanna. 

Viljað aðgengi fyrir alla

„Þar er verið að efla landshlutana í að byggja upp og móta stefnu í uppbyggingu á ferðaþjónustu. Það hefur gengið vel og áfangastofurnar standa sig vel í því. Þá eru verkefni þar í gangi í vöruþróun, markaðssetningu og svo beita þær sér fyrir ýmsu samstarfi á milli fyrirtækja. Þetta er það sem ber hæst í því,“ segi Skarphéðinn. 

Á döfinni hjá Ferðamálastofu er mikilvægt verkefni sem snýr að aðgengi fyrir alla að ferðamannastöðum. „Gríðarlega mikilvægt mál sem við unnum í samstarfi við Sjálfsbjörgu og öryrkjabandalagið. Það sýnir vel fram á tækifærin sem felast í því að sinna þessum markhópum betur – að hafa áfangastaði ferðamanna aðgengilega fyrir alla.“ 

mbl.is