Átta handteknir – vilja gæsluvarðhald yfir þremur

Talið er að 30 einstaklingar hafi tekið þátt í árásinni.
Talið er að 30 einstaklingar hafi tekið þátt í árásinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búið er að handtaka átta einstaklinga sem tóku þátt í árásinni á Bankastræti Club í nótt. Þá er búið að ákveða að fara fram á gæsluvarðhald yfir þremur þeirra, en eftir á að taka ákvörðun um aðra. Árásin er rannsökuð sem tilraun til manndráps.

Þetta segir Mar­geir Sveins­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, í samtali við mbl.is.

Hátt í þrjátíu manns tóku þátt

„Eins og hefur komið fram þá voru þarna hátt í þrjátíu manns, það var reyndar fyrst talað um tuttugu og fimm en eftir skoðun erum við að átta okkur á því að þetta eru hátt í þrjátíu manns, sem eiga einhverja aðild að þessari árás sem virðist vera skipulögð.

Við erum að reyna átta okkur á því hverjir taka þátt í hverju, hlutverk hvers og eins. Við lítum svo á að hver og einn hafi átt hlutverk þannig að þátttaka þessara aðila er svo sannarlega í þessari atlögu, það svo sem breytir ekki hver gerir hvað. Hvort að þessi hópur, eða hópar eða hvernig sem það er, tengist skipulögðum brotahópum sem við þekkjum er til skoðunar og á eftir að koma í ljós,“ segir Margeir.

Leggja allt í sölurnar

Lögreglan lítur árásir sem þessar alvarlegum augum og er nú unnið að því að hafa uppi á  þeim einstaklingum sem tóku þátt í árásinni.

„Ég vil að það komi skýrt fram að við lítum það alvarlegum augum þegar menn eru farnir að sammælast um svona verknað og þessi fjöldi eins og er í þessu tilviki. Þannig að við munum leggja allt í sölurnar að hafa uppi á þessum einstaklingum,“ segir Margeir og bætir við:

„Við teljum okkur vera komin með nokkuð góða mynd af því hverjir eru þarna að verki og erum núna að leita þá uppi. Ég skora á þessa aðila sem að þarna voru og tóku þátt í þessu að gefa sig fram við lögreglu því að við munum ekki hætta fyrr en við erum búin að finna þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert