Dæmdur til að greiða 240 milljónir í sekt

Maðurinn þarf að greiða háa sekt.
Maðurinn þarf að greiða háa sekt. mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum í rekstri nokkurra félaga. Hann var dæmdur í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða 240 milljónir í sekt til ríkissjóðs. 

Héraðssaksóknari ákærði manninn, Sverri Halldór Ólafsson, fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti í rekstri fjögurra einkahlutafélaga, sem eru nú öll afskráð í dag.

Fram kemur í ákæru, sem er í fjórum liðum, að hann hafi, sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður, ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem var innheimtur í rekstri félaganna, fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað félaganna ávinnings af brotunum og nýtt þann ávinning í þágu rekstrar þeirra. Hann var einnig ákærður fyrir að standa ríkissjóði ekki skil á staðgreiðsluskilagreinum þriggja félaga, sem varðar staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem var haldið var eftir af launum starfsmanna félaganna.

Fram kemur í dómnum, sem féll 11. nóvember en var birtur í gær, að í þinghaldi í mars hafi sækjandi fallið frá ákæruköflum er varðar meint peningaþvætti. 

Þá segir að Sverrir hafi játað brot sín skýlaust að teknu tilliti til fyrrnefndra breytinga á ákæru. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. 

„Með vísan til dómaframkvæmdar í sambærilegum málum þar sem verulegar fjárhæðir eru undan dregnar í nokkrum félögum þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tuttugu mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Sem fyrr segir var maðurinn jafnframt dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 240.800.000 krónur til ríkissjóðs. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna skal hann sæta fangelsi í 360 daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert