Dómur héraðsdóms staðfestur í máli Eiríks á Omega

Eiríkur Sigurbjörnsson hjá Omega.
Eiríkur Sigurbjörnsson hjá Omega. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dómur héraðsdóms í máli Eiríks Sigurbjörnsson, stofnanda Omega og sjón­varps­pre­dik­ara á sam­nefndri stöð, var rétt í þessu staðfestur í Landsrétti.

Eiríkur var í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 109 milljónir í sekt vegna brota á skattalögum. Var hann sagður hafa ekki gefið upp tekjur upp á 78,5 milljónir á árunum 2011-2016 í tengslum við starfsemi Omega og þannig komist hjá því að greiða 36 milljónir í skatta.

Fram kem­ur í dómi héraðsdóms að Ei­rík­ur hafi árið 1992 hafið starf­semi Omega, en hann og kona hans voru eig­end­ur fé­lags­ins Omega Krist­in­boðkirkja auk Global Missi­on Network ehf og Gospel Chann­el Evr­ópa ehf. Í síðast­nefnda fé­lag­inu var rek­in er­lend starf­semi Omega og var fé­lagið með reikn­inga í Nor­egi og greiðslu­kort þar.

Rík­is­skatt­stjóri hóf árið 2016 af eig­in frum­kvæði skoðun á notk­un á er­lend­um greiðslu­kort­um hér á landi. Í fram­hald­inu var notk­un Ei­ríks á kort­um í nafni Global Missi­on tek­in til skoðunar og var hann síðar ákærður vegna máls­ins.

Í dóm­in­um er farið yfir að Ei­rík­ur hafi fengið greiðslur frá Omega en að þær hafi svo verið færðar sem skuld á Global Missi­on og að þar hafi safn­ast upp skuld Ei­ríks við fé­lagið. Var skuld­in met­in sem hinar van­fram­töldu tekj­ur og féllst héraðsdómur á það. Sagði í dómi héraðsdóms að ótvírætt hafi verið að umrædd úthlutun af fjármunum frá Global mission til Eiríks hafi verið lán sem bæri að skattleggja sem laun og færa til tekna og að lán sem þetta væri óheimilt samkvæmt ákvæðum laga um einkahlutafélög, en eig­end­um er óheim­ilt að taka lán frá eig­in fé­lög­um.

mbl.is