Enginn búinn undir svona árás

Fram hef­ur komið um 20 manna hóp­ur hafi ráðist inn …
Fram hef­ur komið um 20 manna hóp­ur hafi ráðist inn á skemmti­staðinn í gærkvöldi og að þrír hafi hlotið al­var­leg stungusár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er grafalvarlegt. Ég veit ekki alveg hvaða ástæður búa þarna að baki þessari hópárás á þessa gaura inni á Bankastræti Club,“ segir Arn­ar Þór Gísla­son, einn eig­enda Le­bowski bars, Kalda bars, Enska bars­ins, The Iris­hm­an Pub og Dönsku krá­ar­inn­ar, í samtali við mbl.is.

Fram hef­ur komið að hátt í 30 manna hóp­ur hafi ráðist inn á skemmti­staðinn í gærkvöldi og að þrír hafi hlotið al­var­leg stungusár. 

Mar­geir Sveins­son aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjón sagði í samtali við mbl.is síðdegis að búið sé að hand­taka átta ein­stak­linga. Þá er búið að ákveða að fara fram á gæslu­v­arðhald yfir þrem­ur þeirra, en eft­ir á að taka ákvörðun um aðra. 

„Maður veit ekki hvort að þetta er tengt einhverri starfsemi eða hvort þetta hefði líka getað átt sér stað inn í einhverri fatabúð eða einhverju svoleiðis,“ segir Arnar. 

Hann segir að eigendur veitingastaða í miðbænum séu meðvitaðir um aukningu í gengjamenningu á höfuðborgarsvæðinu, „en lögreglan gefur lítið upp og þar af leiðandi veit maður lítið um hversu alvarlegt ástandið er og hversu mörg gengi eru í gangi. Maður bara vonar að þeir nái að uppræta þetta með því að tengja saman núna einhverja punkta við þessa árás.“

Vonandi einsdæmi

Arnar segir að hann muni ekki auka öryggisgæslu á sínum stöðum eftir atburði næturinnar.

„Við höldum bara okkar striki. Við erum alveg með nægilega fjölda af dyravörðum á stöðunum okkar og þeir eru búnir að fara á öll þau námskeið sem eru í boði og þeir eru skyldugir til að fara á. Maður vonar bara að þessi gengi getið útkljáð sín mál einhversstaðar annars staðar á veitingastöðum, börum eða skemmtistöðum,“ segir hann og bætir við að dyraverðirnir séu meðvitaðir um hvaða einstaklinga skuli varast að hleypa inn á staði.

Arnar segir að fólk í veitingarekstri í miðbænum sé í góðum samskiptum við hvort annað og geti alltaf kallað eftir aðstoð ef þörf ber á. 

„En með svona árásir þá er erfitt að verjast því þegar 20 grímuklæddir menn koma og ráðast inn, hvort sem það er banki eða skemmtistaður. Það er svo sem enginn búinn undir það dagsdaglega undir svona árás. Við vonum að þetta sé bara einsdæmi sem átti sér stað og komi ekki fyrir aftur,“ segir Arnar að lokum. 

Átta hafa verið hand­tekn­ir í aðgerðum lög­reglu.
Átta hafa verið hand­tekn­ir í aðgerðum lög­reglu. mbl.is/Ari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert