Gátu ekki fylgst með eigin réttarhöldum

Erna Hjaltested er lögmaður í mál­inu fyr­ir ís­lenska ríkið og …
Erna Hjaltested er lögmaður í mál­inu fyr­ir ís­lenska ríkið og Útlend­inga­stofn­un. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hussein fjölskyldan gat ekki fylgst með eigin réttarhöldum í máli Husseins Husseins gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag vegna tæknilegra örðugleika með fjarfundarbúnað.

Mál Hus­seins vakti tals­verða at­hygli í byrj­un mánaðar­ins þegar lög­regl­an flutti hann og fjór­tán aðra flótta­menn aft­ur til Grikk­lands þar sem fólkið hafði áður fengið alþjóðlega vernd. Hus­sein er í hjóla­stól og gagn­rýndu meðal ann­ars sam­tök­in Þroska­hjálp aðgerðinar.

Hus­sein Hus­sein gaf skýrslu frá Aþenu í Grikklandi í gegnum fjarfundarbúnað í upphafi aðalmeðferðar máls síns í dag. Sajjad og Yasameen Hussein, systkini Husseins báru einnig vitni með sama hætti.

Þegar komið var að þriðja og síðasta vitninu, Gerði Helgadóttur, heyrðist verulega lítið í henni í sal héraðsdóms og gat dómari illa skilið það sem hún sagði. Hún þurfti að segja kennitölu sína sex sinnum áður en það loks komst til skila.

Urðu þá tæknilegu örðugleikarnir til þess að Gerður þurfti að bera vitni í gegnum síma og ekki var notast meira við fjarfundarbúnaðinn.

Ekki það sama og að vera í dómssal

Þrátt fyrir tæknileg vandamál náðu allir að koma fyrir rétti sem áttu að gera það, en Hussein fjölskyldan gat hins vegar ekki fengið að fylgjast eigin réttarhöldum þegar lögmenn beggja aðila fluttu málflutning sinn.

„Þetta er það sem ég óttaðist mest, að það yrðu einhverjir hnökrar eða erfiðleikar, en það gekk. Þetta er náttúrulega ekki það sama og ef þau væru í dómssalnum og gætu gefið skýrslu beint,“ segir Claudia Ashanie Wil­son, lögmaður Hus­seins, í samtali við mbl.is.

„Eðli málsins samkvæmt vildu þau fylgjast með réttarhöldunum, en það var ekki hægt. Tæknileg vandamál voru til þess að það þurfti að slökkva.“

mbl.is