Skera upp herör í aðdraganda HM (myndskeið)

Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Unicef á Íslandi frumsýndi í morgun myndskeið sem vekja á athygli á réttindum barna og skera upp herör gegn fordómum, mismunun og réttindabrotum í aðdraganda heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu.

Myndskeiðið er hluti af kynningarátaki sem hófst í morgun og er í tilefni af Alþjóðadegi barna sem er fagnað sama dag og mótið hefst. Með myndskeiðinu vill Unicef minna sérstaklega á 2. grein Barnasáttmálans sem kveður á um að öll börn séu jöfn. Þetta kemur fram í tilkynningu Unicef.

Leikstjórinn tekur í hönd forsetans.
Leikstjórinn tekur í hönd forsetans. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkmaður, leikstýrði myndskeiðinu en fjölbreyttur hópur talsmanna tók þátt í gerð þess.

Meðal þeirra sem koma fyrir sögu er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Sandra Sigurðardóttir landsliðskona í knattspyrnu, Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður, fótboltastjarnan og pólski landsliðsmaðurinn Robert Lewandowski, Aníta Briem, leikkona, Mars Proppé, hinseginaktívisti, Anna Sonde úr Antirasistunum, Vilhjálmur Hauksson, fréttamaður á KrakkaRÚV, Sigríður Eyþórsdóttir, tónlistarkona og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður á RÚV.

„Það var frábært að fá að taka þátt í þessu verkefni með UNICEF. Tímasetning þessa átaks er viðeigandi þar sem mikið hefur verið fjallað um mannréttindi í aðdraganda HM í knattspyrnu. Þó svo að fólk kunni að skiptast í fylkingar á knattspyrnuvellinum þá getum við öll verið sammála um að vera í sama liði þegar kemur að réttindum barna,“ er haft eftir Hannesi Þór.   

Hægt er að horfa á myndskeiðið hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert