Staðfesti dóm héraðsdóms í máli smálánafyrirtækis

Dómurinn var kveðinn upp í dag.
Dómurinn var kveðinn upp í dag. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli smálánafyrirtækisins eComm­erce 2020 gegn Neytendastofu, eComm­erce 2020 í vil.

Smálánafyrirtækið sem um ræðir var skráð í Danmörku en veitti svokölluð smálán hér á landi um tíma.

Fyrirtækið höfðaði mál til að fá felldan úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála þess efnis að íslensk lög um neytendalán ættu við um lánssamninga þess við íslenska neytendur, en í lánasamningum sem fyrirtækið gerði við íslenska neytendur var samið um að farið yrði eftir dönskum lögum.

Meginreglan gildir

Í dómi Landsréttar var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um lagaskil á sviði samningarréttar sé það meginregla að þegar samningsskuldbindingar tengjast fleiri en einu landi skuli beita þeim lögum sem samningsaðilar hafi komið sér saman um.

Þá segir í dómunum að í 2. mgr. 5. gr. laganna sé að finna undantekningu frá meginreglunni. Í ákvæðinu kemur fram að ákvæði um lagaval í samningi geti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, aldrei takmarkað þá vernd sem neytandi nýtur samkvæmt ófrávíkjanlegum reglum í lögum þess ríkis þar sem hann býr. 

Dómurinn telur þó að eins og ákvæði 1. mgr. 5. gr. sé orðað, og með hliðsjón af lögskýringargöngum, hafi lánssamningar sem smálánafyrirtækið gerði við neytendur hér á landi ekki fallið undir gildissvið lagagreinarinnar heldur gilti um þá meginregla 1. mgr. 3. gr. laganna. 

Breytingarlögin gilda ekki

Landsréttur tekur fram að ljóst sé að markmið laga um lög um breytingu á lögum um neytendalán, sem tóku gildi árið 2020, hafi meðal annars verið að bæta úr þeim annmarka sem talinn hafi verið á ákvæðum þágildandi laga um lagaskil vegna neytendalána, einkum með hliðsjón af lánastarfsemi á borð við þá sem smálánafyrirtækið rak hér á landi.

Í 1. mgr. 4. gr. a. hinna nýju laga segir að ef neytandi búsettur á Íslandi geri samning við lánveitanda sem hefur staðfestu í öðru ríki skuli íslensk lög gilda um samninginn að uppfylltum nánari skilyrðum. Í lögskýringargögnum var sérstaklega vísað til smálánafyrirtækis sem staðsett væri í Danmörku og kemur þar fram að ekki sé hægt að ætlast til þess að hinn almenni neytandi þekki réttarstöðu sína að því er varðar lagaval samninga sem gerðir eru yfir landamæri.

Rekstur smálánafyrirtækisins var þó starfræktur fyrir gildistöku breytingarlaganna og hrófla ákvæðin því ekki við ákvæðum eldri lánssamninga fyrirtækisins um að dönsk lög skyldu gilda um þá. 

Með hliðsjón af framangreindu var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að fella úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála í máli aðila

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert