„Þeir eru í felum“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrjátíu manna hópur lögreglumanna hefur síðan í nótt leitað þeirra einstaklinga sem frömdu stunguárás á Bankastæti Club í gær. Lögregla hefur farið víða í dag og meðal annars óskað eftir aðstoð lögreglunnar á Suðurlandi við leitina. 

„Þeir eru í felum og vita að lögreglan er að leita að þeim,“ seg­ir Mar­geir Sveins­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, í sam­tali við mbl.is.

Spurður hvort hann telji þessa einstaklinga vera saman í felum telur hann svo ekki vera.

Fylgjast með hvort þeir reyni að flýja land

Lögregla telur að um þrjátíu einstaklingar hafi tekið þátt í árásinni. Búið er að handtaka átta og er því um tuttugu einstaklinga enn leitað.

Teljið þið að þessir einstaklingar séu að reyna flýja land?

„Það er eitt af því sem að við erum að skoða og kemur alveg til greina,“ segir Margeir.

Farið þið þá fram á farbann á þeim?

„Það verður bara að koma í ljós. Þetta er hlutur sem að við erum að vinna í og eitt af því er auðvitað að menn komist ekki úr landi.“

Sex húsleitir á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan hefur farið í sex húsleitir á höfuðborgarsvæðinu í dag. Margeir vildi ekki gefa upp nákvæmlega hverju lögregla hafi verið að leita að.

„Við erum að leita að sönnunargögnum sem við teljum geta skýrt þetta mál.“

Árásin var framin á Bankastræti Club í gær.
Árásin var framin á Bankastræti Club í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Konur og karlar komu að árásinni

Allir þeir sem tóku þátt í árásinni í gær eru í kringum tvítugt. Margeir segir flesta sem lögregla telur hafa komið að henni vera karlmenn en þó séu einhverjar konur einnig taldar eiga aðild. Þá er talið að allir sem hafi tekið þátt í skipulagningu árásarinnar hafi verið á Bankastræti Club í gær.

Margeir vildi hvorki ekki gefa upp hvort einhverjir þeirra sem lögregla telur hafa tekið þátt í árásinni hafi áður komið við sögu lögreglu né hvort lögregla teldi hópinn tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.

„Við teljum okkur vita hverjir þetta eru og hvað hóp þarna er um að ræða. Hvernig þeir kynntust eða hvaða áhugamál þeir hafa saman er eitthvað sem kemur í ljós síðar,“ segir Margeir.

Fjöldi vopna óljós

Fram hefur komið að eggvopn hafi verið notuð við árásina. Ekki hefur komið fram um hversu mörg vopn um ræðir og vildi Margeir ekki gefa það upp.

Lögregla hefur farið fram á gæsluvarðhald yfir þremur en Margeir vildi ekki gefa upp hvort þeir þrír séu grunaðir um að hafa beitt eggvopni í árásinni.

„Það er það sem við erum að skoða. Hver og einn hefur hlutverk í þessu og svo bara kemur í ljós hver gerir hvað. En það er alveg ljóst, og lítur út fyrir, að menn vita alveg hver tilgangurinn er að fara þarna inn.“

Lögregla telur öryggi almennings ekki ógnað með árásinni.
Lögregla telur öryggi almennings ekki ógnað með árásinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ógni ekki almenningi

Lögreglan segir árásina hafa verið skipulagða en ekki sé ljóst hversu langan tíma árásarmennirnir hafi gefið sér í skipulagningu. Þá liggur ekki heldur fyrir hvað lá að baki henni.

Spurður hvort almenningur þurfi að óttast um öryggi sitt telur Margeir svo ekki vera.

„Þeir eru þarna að fara í ákveðna menn, það er fleira fólk þarna inni og það alveg látið vera.“

mbl.is