Segist hafa verið stunginn sjö sinnum

Bankastræti Club.
Bankastræti Club. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn þeirra sem varð fyrir stunguárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club á fimmtudagskvöld segist hafa verið stunginn sjö sinnum, meðal annars í bakið og í annað lungað. Annar sem varð fyrir árásinni segist hafa verið stunginn tvisvar sinnum.

Báðir liggja þeir á spítala en eru á batavegi.

Í viðtali á Vísi segjast þeir hafa verið staddir á Latino-kvöldi á neðri hæð skemmtistaðarins þegar hópur manna ruddist þangað niður og réðst á þá.

„Í flestum tilfellum þá veistu ekkert að þú sért stunginn fyrr en þú sérð það sjálfur. Þegar ég stend upp þá sé ég að það er bútur út úr bakinu mínu, bara hangandi út. Þá fattaði ég að ég hafi verið stunginn. Fyrir það vissi ég ekkert að ég hafi verið stunginn. Þá byrjaði „rush-ið“ og adrenalínið,“ segir annar mannana, Lúkas Geir, í viðtalinu, en hann segist hafa verið stunginn tvisvar.

Innsigli lögreglunnar á Bankastræti Club í gær.
Innsigli lögreglunnar á Bankastræti Club í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hinn maðurinn, John Sebastian bætir við: „Þeir koma bara niður tröppurnar. Við ætluðum að fara á klósettið, ég þurfti að pissa. Svo sé ég bara helling af gaurum að vera að að hlaupa niður,“ segir hann.

Tíu hafa verið handteknir vegna árásarinnar. Farið hefur verið fram á gæsluvarðhald yfir fimm þeirra. Um tuttugu manns er enn leitað.

mbl.is