Fjölskyldufólki gert að flytja í annað hverfi

Framkvæmdir við Eggertsgötu síðasta föstudags.
Framkvæmdir við Eggertsgötu síðasta föstudags. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið rask hefur orðið á högum margra íbúa á stúdentagörðum vegna framkvæmda hjá  Félagsstofnun stúdenta samkvæmt viðmælendum mbl.is. 

Íbúum á Eggertsgötu verður gert að flytja tímabundið vegna framkvæmda og þá fylgir einnig mikill hávaði slíkum framkvæmdum eins og gefur að skilja.

Eins og fram kemur í grein á mbl.is fyrr í dag er útlit fyrir að stúdentar þurfi að flytja þegar desemberpróf standa yfir. Nokkur átök urðu fyrr á árinu þegar svipuð staða var uppi og rataði málið þá í fjölmiðla.

Háskólaneminn Ólína Lind fékk tölvupóst frá Félagsstofnun stúdenta í janúar árið 2021 þar sem fram kom að hún þyrfti að flytja í Fossvog eftir mánuð vegna þess að til stæði að gera upp íbúðir á Vetrargörðum við Eggertsgötu. Hún hafði verið í eitt og hálft ár á stúdentagörðum þegar hún þurfti að flytja. 

„Ég fékk taugaáfall“

Ef ég væri ekki með börn þá hefði mér líklega ekki fundist þetta mikið mál en ég var einstæð með unga tvíbura. Reyndar voru allir í húsinu með börn. Ég er auk þess bíllaus og við vorum að flytja í burtu frá leikskólanum. Þetta var því mjög stressandi og tók mjög mikið á en ýmislegt hafði gengið á í mínu lífi. Þessi tíðindi voru kornið sem fyllti mælinn og ég fékk taugaáfall þegar ég fékk þennan tölvupóst,“ segir Ólína og henni virtist sem málið væri ekki til umræðu frekar. 

Þetta var bara tilkynnt og ekki virtist vera hægt að semja um neitt. Ég trúði því varla að henda ætti út fjölskyldufólki og senda það í annað hverfi í borginni. Reiðin hjá fólki var almenn og bakkað var með þessar áætlanir eftir að við höfðum farið í hart og leitað til lögfræðings. Þá fengum við að flytja í íbúðirnar á móti og fluttum því innan Vetrargarða. 

Ólína segir að óreyndu hefði hún ekki getað ímyndað sér hversu slæm áhrif áreitið og streitan hafði á hana. 

„Svona lagað tekur miklu meira á en ég hefði getað ímyndað mér. Tvíburarnir voru eins og hálfs árs, ég var í náminu og þurfti að flytja með litlum fyrirvara. Þegar um svona viðkvæman hóp er að ræða, eins og námsmenn með börn, þá getur fólki fundist erfitt að verja sig. Það fer orka í að flytja, bæði andleg og líkamleg. Ég er í meistaranámi þar sem er mætingaskylda og mörg verkefni. Meðan á þessu stóð þá datt ég út úr tveimur áföngum. Áhyggjurnar í kringum þetta fóru bara með mig. Ég er svolítið ein hérna og hugsaði látlaust um hver ætti að hjálpa mér að flytja, hvernig yrði að komast í leikskólann og hvernig ég ætti að komast í skólann,“ segir Ólína og lýsir þeirri skoðun sinni að samskiptin við FS hafi ekki bætt úr skák.

„Mér fannst ég ekki mæta nokkrum skilningi til að byrja með enda virtist þetta ekki vera til umræðu. Ég er sátt við lokaniðurstöðuna en það var alger óþarfi að koma svona fram og varpa sprengju inn í líf mitt,“ segir Ólína og bætir við að á einhverjum tímapunkti hafi henni verið boðin íbúð á Eggertsgötu 12. Þar er fólki nú gert að flytja. Hefði hún þegið þá íbúð þá hefði hún þurft að standa aftur í flutningum í næsta mánuði. 

Forðaði fjögurra mánaða barni frá hávaðanum

Mbl.is ræddi einnig við tveggja barna móður sem gert er að flytja í næsta mánuði. Hún kýs að láta ekki nafn síns getið en hún flutti síðast á milli íbúða á stúdentagörðum þegar hún var komin átta mánuði á leið. 

„Ég fékk úthlutað stærri íbúð þar sem von var á barni númer tvö hjá mér. Ég flutti inn þegar ég var komin átta mánuði á leið en það var ekkert smá erfitt og mér fannst vera stór áfangi að komast í gegnum það. Bjóst ég við því að geta þá verið í sömu íbúð næstu árin. Í júlí fékk ég tölvupóst um að ég þyrfti að flytja út í nóvember eða desember vegna þess að gera eigi húsið upp. Í framhaldinu hafa verið brjáluð læti nærri íbúðinni vegna framkvæmda. Ég þurfti að flýja með litla barnið heim til mömmu til að barnið gæti sofið og ég gæti sinnt náminu. Samkvæmt FS á ég að flytja í annað hús við Eggertsgötu í desember en ég get ekki flutt á þessum árstíma því ég er bæði í prófum og að skrifa ritgerðir. Ég hef bara ekki tíma í flutninga ofan á annað,“ segir stúdentinn og er hún óánægð með samskiptin við FS. 

„Mér var tjáð að þau hefðu ekki vitað að til stæði að fara í framkvæmdir á íbúðinni þegar ég flutti inn. Mér finnst þetta ótrúverðugt því tilkynnt var um þær framkvæmdir aðeins tveimur mánuðum síðar en þau segja að það hafi ekki komið í ljós fyrr en í sumar. Nýlega kom fram í tölvupósti frá þeim að við værum heppin að fundist hefði annað húsnæði fyrir okkur því við hefðum að öðrum kosti getað misst húsnæði á stúdentagörðum. Svörin eru á þá leið að ekkert sé við þessu að gera þar sem FS standi í framkvæmdum.

Ég skil það en það er ekkert komið til móts við mann þótt varla sé búandi þarna fyrir hávaða. Maður er bara nafn á blaði. Þetta er mjög leiðinleg staða og ég er viss um að andrúmsloftið væri allt annað ef viðmótið væri betra. Ef maður hefði fundið fyrir einhverjum skilningi á aðstæðum námsmanns með börn. Það er pressa á manni í náminu vegna þess að þetta helst allt í hendur. Ef ég fell í einhverjum áfanga þá skerðast námslán, eða falla niður á næstu önn, og þá get ég ekki greitt húsaleigu. Þetta spiilar allt saman leikskólapláss, vera á stúdentagörðum og lánasjóðurinn,“ segir stúdentinn. 

Allt gert til að koma til móts við óskir íbúa

Mbl.is hafði samband við Félagsstofnun stúdenta vegna málsins og leitaði viðbragða vegna þessarar óánægju sem fjölmiðlinum hefur borist eins og getið var í greininni fyrr í dag. Í svari frá þjónustustjóra hjá FS vegna stúdentagarða kemur fram að FS geti vitaskuld ekki tjáð sig um einstök mál. En á almennum nótum bendir FS beri að viðhalda húsnæði sem sé í eigu þess en starfsfólk FS geri sér grein fyrir að streituvaldandi geti verið að búa við framkvæmdasvæði. 

„Við áttum okkur á því að það getur verið streituvaldandi að búa við framkvæmdir eða á framkvæmdarsvæði, en á Stúdentagörðum, líkt og annars staðar, lenda því miður alltaf einhverjir í því að búa við slíkt. Við getum ekki sett framkvæmdir, hvort sem um er að ræða nýframkvæmdir eða viðhaldsframkvæmdir á bið, en reynum eftir fremsta megni að lágmarka rask fyrir íbúa okkar, t.a.m. flutninga á milli húsa á meðan á framkvæmdum stendur.

FS ber sem eiganda húsnæðis að viðhalda því. Um það má m.a. vísa til 19. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Í 19. gr. þeirra segir að leigusali annist viðhald hins leigða, innanhúss sem utan. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að leigusali skuli jafnan halda hinu leigða húsnæði í leiguhæfu ástandi. Samkvæmt 21. gr. laganna skal leigusali láta vinna fljótt og vel alla viðgerðar- og viðhaldsvinnu þannig að sem minnstri röskun valdi fyrir leigjanda. FS hefur ávallt lagt áherslu á það í viðhaldi fasteigna sinna.“

Mikið er að gera hjá Félagsstofnun stúdenta. Framboði af íbúðum …
Mikið er að gera hjá Félagsstofnun stúdenta. Framboði af íbúðum hefur fjölgað og aðrar eru gerðar upp. Ljósmynd/Aðsend

Varðandi fyrirvara og tilkynningar í tengslum við framkvæmdir segir í svari FS að reynt sé að tilkynna um slíkt með eins góðum fyrirvara og unnt er. 

„Framkvæmdir eru alltaf tilkynntar með eins góðum fyrirvara og kostur er á, þær framkvæmdir sem nú eru að hefjast voru kynntar íbúum með tölvupósti í júlí sl. Það er með fimm mánaða fyrirvara. Íbúar voru upplýstir um að vegna eðlis framkvæmdanna þyrftu þeir að flytja í aðra íbúð á Stúdentagörðum þegar að þeim kæmi. Með þessu móti gat FS tryggt öllum íbúum sem vildu, áframhaldandi búsetu á Stúdentagörðum í sambærilegri íbúð. Ef sá kostur hugnaðist ekki, hefðu íbúar tíma til að leita annarra úrræða.

Félagsstofnun stúdenta er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun og í þeim tilfellum sem íbúar óska eftir stærra húsnæði, t.d. með fleiri herbergjum, greiða þeir uppsett leiguverð fyrir það húsnæði. FS telur sig hafa gert allt sem í valdi FS stendur til að koma til móts við óskir íbúa.“

mbl.is