Neðanjarðarlestir ekki „absúrd“ hugmynd

Pawel Bartoszek.
Pawel Bartoszek. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, segir það ekki „absúrd“ hugmynd að byggja neðanjarðarlestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu.

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sagðist hann hafa fengið hugmyndina þegar hann heimsótti ítölsku borgina Brescia í sumar. Borgin sé sambærileg höfuðborgarsvæðinu að stærð og að hún hafi tekið í notkun neðanjarðarlestarkerfi árið 2013, 14 til 15 km langt, sem liggur í gegnum borgina. Það kostaði 120 til 130 milljarða króna miðað við verðlag dagsins í dag.

Væri djarft og dýrt

Pawel sagði Brescia hafa eytt sambærilegri upphæð og íslensk stjórnvöld ætla að eyða í samgöngusáttmálann, en ekki til að byggja „fullt af vegum“, heldur til að byggja lestarkerfið.

„Hugmyndin er ekkert lengur eitthvað algjörlega absúrd en auðvitað væri þetta mjög djarft og gríðarlega dýrt,“ sagði hann og bætti síðar við: „Þetta eru ekkert upphæðir sem við könnumst ekki lengur við þegar kemur að samgönguframkvæmdum.“

Gæti byrjað í Hafnarfirði

Hann sagði lestina geta byrjað í Firðinum í Hafnarfirði, farið þaðan í Garðabæ, yfir á Smáralindarsvæðið, þaðan farið í Hamraborg, svo í Kringluna, á Borgartúnssvæðið og svo neðanjarðar eftir Laugaveginum. Hún gæti endað á Granda ef ný íbúabyggð rísi þar í framtíðinni.

Pawel sagði allt í lagi að ræða málið, sérstaklega ef borgarlínan myndi ganga vel. Hann nefndi að borgarlínan geri ráð fyrir að flutningsgeta almenningssamgöngukerfisins aukist í 12% af öllum ferðum. Neðanjarðarlestirnar yrðu þannig ekki settar til höfuðs borgarlínunni heldur yrðu þær framhald af henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert