Segja farir sínar ekki sléttar

Mikillar gremju gætir meðal íbúa á stúdentagörðum samkvæmt viðmælendum mbl.is en íbúum á Eggertsgötu 12 verður gert að flytja tímabundið vegna framkvæmda.

Útlit er fyrir að stúdentarnir verði látnir flytja þegar desemberprófin verða í fullum gangi í Háskóla Íslands.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Félagsstofnun stúdenta staðið í ýmsum framkvæmdum og framboð af húsnæði fyrir háskólanema hefur aukist. Aldrei hafa jafn margir fengið leiguhúsnæði hjá FS eins og í haust en þessum umsvifum virðast fylgja vaxtarverkir því stúdentar á Eggertsgötu segja farir sínar ekki sléttar í samskiptum við FS. Viðmælendur mbl.is segja lítið sem ekkert tillit vera tekið til aðstæðna hjá háskólanemum.

Leigan hækkar um 30 þúsund eftir flutninga

Fólk er orðið þreytt á samskiptum við Félagsstofnun stúdenta að sögn Hörpu Ýr Jóhannsdóttur, íbúa á stúdentagörðunum. 

25. júlí í sumar fengum við tölvupóst frá FS um að þau ætli að gera við húsnæðið á Eggertsgötu 12 og okkur myndu bjóðast nýuppgerðar íbúðir á Vetrargörðum í staðinn, sem er húsið við hliðina. Þau sögðust ekki vita hvenær en gert væri ráð fyrir að það gæti orðið í kringum áramótin 2022/2023. Ég sagði við þau að ég myndi ekki vilja flytja rétt fyrir jól og myndi vilja flytja sem fyrst. Þau sögðust ætla að láta vita um leið og nýtt húsnæði yrði tilbúið. Næst fékk ég tölvupóst 25. október þar sem fram kom að nýju íbúðirnar yrðu tilbúnar í lok nóvember. Þar af leiðandi hefur fólk ekki nema fjórar vikur til að pakka saman og flytja,  segir Harpa en dagsetningarnar á flutningunum hafa svo færst inn í prófatímann. 

Næst komu skilaboð um að nýju íbúðirnar yrðu tilbúnar í byrjun desember en síðar fékk ég tölvupóst um að það yrði ekki fyrr en 15. desember. Þetta fannst mér ekki sanngjarnt enda erfitt fyrir fólk að standa í flutningum, með öllu sem því fylgir, þegar það er í prófum í háskólanum.  

Fyrir utan raskið sem fylgir því fyrir Hörpu að flytja með fimm manna fjölskyldu þá þykir henni ósanngjarnt að bera kostnaðinn af flutningum sem fara fram vegna framkvæmda hjá FS. Hún segist vera tilbúin til að flytja en vill að FS komi með einhverjum hætti til móts við hana. Einnig í ljósi þess að þau hafi búið við mikinn hávaða vegna framkvæmda í langan tíma. Til að mynda hafi staðið yfir viðgerðir á þakinu í húsinu í átta mánuði og Harpa og fjölskylda eru á efstu hæð. Hún hafi einnig tilkynnt um brotin glugga fyrir einu og hálfu ári síðan án þess að brugðist hafi verið við og myglugró hafi fundist í tveimur íbúðum sem hún veit af. Með þessari grein fylgir myndskeið sem gefur innsýn í hávaðann sem berst inn í íbúðina hjá Hörpu og fjölskyldu. 

Frá framkvæmdum við Eggertsgötu á föstudaginn.
Frá framkvæmdum við Eggertsgötu á föstudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég þarf að bera svo mikið af kostnaðinum og ég er svo ósátt við það. Ég þarf til að mynda að borga fyrirtækinu sem aðstoðar við flutningana. Fyrir utan allan þann tíma sem fer í að flytja með þrjú börn þegar maður gæti verið að sinna náminu. FS er sem sagt að biðja mig um að flytja núna rétt fyrir jól og flytja af görðunum í júlí þar sem ég er að ljúka mastersnáminu í vor.“ 

Harpa segir að til standi að hún borgi hærri húsaleigu á nýja staðnum vegna þess að þau fari í íbúð sem sé stærri og nýuppgerð. Ekki hafi verið hægt að setja þau í jafn stóra íbúð. Valkostirnir séu að borga hærri húsaleigu í stærri íbúð eða að fara í íbúð sem er minni en 70 fermetrar. Þau sögðust ætla að rifta leigusamningnum sem á að gilda fram í ágúst 2023. Mánuði eftir að leigusamningurinn var endurnýjaður var tilkynnt um þessar breytingar. Í nýjum samningi eigum við að borga hærri leigu. Við borgum 182 þúsund á mánuði en eigum að borga 210 þúsund á mánuði eftir breytingarnar sem er ansi mikil hækkun og það án fyrirvara. Þá var okkur boðin íbúð sem er minni og við myndum þá borga 170 þúsund en sú íbúð hentar okkur bara alls ekki,“ segir Harpa í samtali við mbl.is en rætt hefur verið við fleiri stúdenta og verða frásagnir þeirra birtar síðar í dag. 

Ákvæði þarf í leigusamningi

Mbl.is ræddi við tvo lögfræðinga varðandi leigusamninga og rétt leigusala til að flytja leigjendur til.  Þeir segja vafasamt að leigusali geri leigjendum að flytja í annað húsnæði og þurfi þar að greiða hærri leigu. Slíkt þyrfti þá að vera hreinlega sagt berum orðum í leigusamningi sem leigjendur undirriti.

Varðandi það að leigjendum sé gert að flytja vegna aðstæðna sem koma upp á hjá leigusala, eins og framkvæmdum, töldu lögfræðingarnir að slíkt ákvæði þurfi að vera í leigusamningi. Að leigusali áskilji sér slíkan rétt. Sé skrifað undir slíkt þá standist það væntanlega en á hinn bóginn hljóti leigusali að þurfa að taka tillit til aðstæðna leigjenda eins og í þessu tilfelli háskólanema. 

Allt gert til að koma til móts við óskir íbúa

Mbl.is hafði samband við Félagsstofnun stúdenta vegna málsins og leitaði viðbragða vegna þessarar óánægju sem fjölmiðlinum hefur borist. Í svari frá þjónustustjóra hjá FS vegna stúdentagarða kemur fram að FS geti vitaskuld ekki tjáð sig um einstök mál. En á almennum nótum bendir FS á að stofnuninni beri að viðhalda húsnæði sem sé í eigu hennar en starfsfólk FS geri sér grein fyrir að streituvaldandi geti verið að búa við framkvæmdasvæði. 

„Við áttum okkur á því að það getur verið streituvaldandi að búa við framkvæmdir eða á framkvæmdarsvæði, en á Stúdentagörðum, líkt og annars staðar, lenda því miður alltaf einhverjir í því að búa við slíkt. Við getum ekki sett framkvæmdir, hvort sem um er að ræða nýframkvæmdir eða viðhaldsframkvæmdir á bið, en reynum eftir fremsta megni að lágmarka rask fyrir íbúa okkar, t.a.m. flutninga á milli húsa á meðan á framkvæmdum stendur.

FS ber sem eiganda húsnæðis að viðhalda því. Um það má m.a. vísa til 19. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Í 19. gr. þeirra segir að leigusali annist viðhald hins leigða, innan húss sem utan. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að leigusali skuli jafnan halda hinu leigða húsnæði í leiguhæfu ástandi. Samkvæmt 21. gr. laganna skal leigusali láta vinna fljótt og vel alla viðgerðar- og viðhaldsvinnu þannig að sem minnst röskun valdi fyrir leigjanda. FS hefur ávallt lagt áherslu á það í viðhaldi fasteigna sinna.“

Glugginn brotnaði fyrir einu og hálfu ári að sögn Hörpu.
Glugginn brotnaði fyrir einu og hálfu ári að sögn Hörpu. Ljósmynd/Aðsend

Varðandi fyrirvara og tilkynningar í tengslum við framkvæmdir segir í svari FS að reynt sé að tilkynna um slíkt með eins góðum fyrirvara og unnt er. 

„Framkvæmdir eru alltaf tilkynntar með eins góðum fyrirvara og kostur er á, þær framkvæmdir sem nú eru að hefjast voru kynntar íbúum með tölvupósti í júlí sl,. það er með fimm mánaða fyrirvara. Íbúar voru upplýstir um að vegna eðlis framkvæmdanna þyrftu þau að flytja í aðra íbúð á Stúdentagörðum þegar að þeim kæmi. Með þessu móti gat FS tryggt öllum íbúum sem vildu, áframhaldandi búsetu á Stúdentagörðum í sambærilegri íbúð. Ef sá kostur hugnaðist ekki, hefðu íbúar tíma til að leita annarra úrræða.

Félagsstofnun stúdenta er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun og í þeim tilfellum sem íbúar óska eftir stærra húsnæði, t.d. með fleiri herbergjum, greiða þeir uppsett leiguverð fyrir það húsnæði. FS telur sig hafa gert allt sem í valdi FS stendur til að koma til móts við óskir íbúa.“

Frá framkvæmdum við Eggertsgötu.
Frá framkvæmdum við Eggertsgötu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert