Gerir ráð fyrir þátttöku í lofts­lags­ham­fara­sjóð

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, sagðist í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi gera ráð fyrir því að Ísland muni taka þátt í svo­kölluðum lofts­lags­ham­fara­sjóð sem er ætlað að aðstoða þjóðir í viðkvæmri stöðu við að tak­ast á við af­leiðing­ar lofts­lags­breyt­inga. Sjóðurinn var samþykktur á ráðstefnunni COP27 í Egyptalandi sem lauk í gær. 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði Guðlaug hvort Ísland væri skuldbundið í að taka þátt í sjóðnum, hvaða upphæð væri gert ráð fyrir að yrði árlegt framlag Íslands og hvenær íslensk stjórnvöld myndu byrja að greiða í sjóðinn. 

Guðlaugur hóf mál sitt að beina spurningunni til baka á Bergþór þar sem hann var á sjálfur á ráðstefnunni en ekki Guðlaugur. 

Hann sagði þó að öllu gamni slepptu hafi hann fylgst náið með ráðstefnunni og að þjóðir heims væru nú loks að átta sig á alvarleika málsins og hve verkefnið er stórt. 

Íslendingar ekki hikað við að aðstoða

„Ef að kemur til – sem allar líkur eru á og allt bendir benda til mikils skaða – að við myndum alltaf þurfa að bera einhver kostnað af því. Við Íslendingar höfum allavega fram til þessa ekki hikað við að hjálpa fátækari löndum þegar orðið hamfarir á að máli, jafnvel í löndum sem eru mjög mjög mjög langt frá okkur,“ sagði Guðlaugur og benti á að það ætti eftir að útfærasjóðinn. 

„Þó svo að þessi ákvörðun hafi verið tekin þá á eftir að svara fjölmörgum spurningum hvað sjóðinn varðar,“ sagði hann en sjóður­inn var samþykkt­ur af nærri 200 ríkj­um á COP27. Hins veg­ar er enn ekki búið að semja um hversu mikið fé skuli renna til sjóðsins, af hverj­um og á hvaða grund­velli.

Bergþór spurði þá hvort sjóðurinn og þátttaka hafi verið rædd í ríkisstjórn og hvað hann teldi, án ábyrgðar, líklegt að skynsamlegt framlag Íslands yrði árlega. 

Guðlaugur svaraði að ekki væri hægt að svara þessum spurningum. Hann sagði þó að ráðstefnan hafi verið rædd í ríkisstjórninni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina