Alvarleg hótun sem ber að skoða

Lögreglan verður með aukinn viðbúnað um helgina.
Lögreglan verður með aukinn viðbúnað um helgina. mbl.is/Ari

Skjáskot af skilaboðum sem gengið hafa manna á milli á samfélagsmiðlum í dag, þar sem varað er við yfirvofandi árás í miðbæ Reykjavíkur, er ein alvarlegasta hótun tengd almannaöryggi sem lögreglan hefur fengist við í langan tíma, að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar aðstoðarlögreglustjóra.

Aukinn viðbúnaður lögreglu verður í miðbæ Reykjavíkur líkt og hefur verið frá því á fimmtudaginn í síðustu viku þegar þrír karlmenn voru stungnir í árás á Bankastræti Club. 

Fólk er þó ekki hvatt til þess að forðast miðbæinn.

Langvarandi deilur

Hátt í þrjátíu manns hafa verið handtekin vegna málsins og á annan tug einstaklinga sætir gæsluvarðhaldi. Enn er nokkurra leitað. Lögreglan telur langvarandi deilur liggja að baki árásinni og hefur aðstandendum þeirra sem eiga hlut að máli einnig verið hótað. Helgi Gunn­laugs­son, pró­fess­or í af­brota­fræði við Há­skóla Íslands, hefur líkt þessum atburði við Sturlungastyrjöld í undirheimunum.

Í dag gengu skjáskot af nokkrum skilaboðum milli fólks á samfélagsmiðlum þar sem fram kom að verið væri að undirbúa umfangsmiklar árásir í miðbæ Reykjavíkur um helgina í tengslum við þessa árás. 

Var fólk þar hvatt til að forðast skemmtanalífið í miðbænum um helgina.

Fólk geti skemmt sér í miðbænum

Lögreglan telur sig hafa ákveðnar upplýsingar um uppruna skilaboðanna en Ásgeir Þór segir að ekki sé talin ástæða til þess að hvetja fólk til að halda sig fjarri skemmtanalífinu um helgina. 

„En auðvitað getur lögregla ekki hundsað það sem að kemur fram með þessum hætti,“ segir Ásgeir Þór og bætir við að lögreglan skoði nú uppruna skilaboðanna enn frekar og vinni að því að komast til botns í því hver raunverulegur tilgangur skilaboðanna er.

„Það eru búnar að vera hótanir. Það er búið að kasta bensínsprengju í átt að fjölbýlishúsi, það er búið að fremja skemmdarverk eins og rúðubrot og aðrar hótanir. Þannig við vorum hvort eð er með það í kortunum að auka viðbúnaðinn um næstu helgi og lengur heldur en það þannig þetta breytir ekkert rosalega mikið plönunum hjá okkur.“

Er fólk hvatt til að halda sig fjarri miðbænum?

„Nei alls ekki. Við metum það ekki þannig eins og staðan er núna. Ef svo væri myndi lögreglan senda út tilkynningu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert