Alvogen og Halldór ná sáttum

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, og Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá …
Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, og Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá félaginu. mbl.is/samsett mynd

Alvogen og Halldór Kristmannsson, fyrrverandi samskiptastjóri hjá fyrirtækinu, hafa náð sáttum í kjölfar ásakana Halldórs varðandi starfshætti Róberts Wessman, stærsta eiganda og forstjóra félagsins. Þá fellur félagið frá málsókn gagnvart Halldóri og mun hann loka heimasíðu sinni þar sem hann lýsti háttsemi Róberts. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar kemur jaframt fram að Halldór hafi lýst því yfir að hann hafi ekki stöðu uppljóstrarar í neinni lögsögu og að hann lýsi yfir trausti til Róberts í kjölfar rannsóknar óháðra sérfræðinga á ásökunum Halldórs. Ekki er tekið fram hvaða óháðu sérfræðingar það eru, en áður hafði komið fram að Alvogen hafi ráðið alþjóðlegu lögmannsstofuna White & Case til að rannsaka málið.

Lára Ómarsdóttir, samskiptastjóri Aztiq, fjárfestingafélags Róbert, staðfestir við mbl.is að sátt hafi náðst. Þá segir hún að Halldór fái ekkert greitt vegna samkomulagsins utan samningsbundinna greiðsla samkvæmt ráðningarsamningi auk útlagðs lögmannskostnaðar.

Í október ræddi mbl.is við Halldór og sagði hann þá að sáttaferli milli hans og Alvogen hafi siglt í strand. Halldór hafði áður sent stjórn félagsins skriflega hvatningu til að fara ofan í saumana á starfsháttum Róberts og greindi um leið frá líkamsárásum af hans hendi á fyr­ir­tækjaviðburðum, líf­láts­hót­un­um gegn fyrr­ver­andi stjórn­end­um auk rógs­her­ferða í garð meintra óvild­ar­manna Ró­berts, víða um þjóðfé­lagið. Sagði hann Alvogen jafnframt hafa samið við fyrrverandi framkvæmdastjóra gæðamála eftir að hún sakaði Róbert um ósæmilega hegðun.

Halldór kallaði þá jafnframt rannsókn alþjóðlegu lögmannsstofunnar White & Case vera hvítþvott, en að lögmaður Alvogen hafi ekki viljað leggja hana fram fyrir dómi.

Alvogen hafnaði ummælum Halldórs og sagði þau full af rangfærslum og að Halldór vilji koma höggi á fyrirtæki í fjárhagslegum tilgangi. Sagði fyrirtækið sáttavilja Halldórs ekki hafa verið einlægan í gegnum sáttaferlið.

Uppfært: Í tilkynningu Halldórs til fjölmiðla kemur fram að hann óski Róberti og Alvogen velfarnaðar. Staðfestir hann jafnframt að samkomulagið hafi ekki falið í sér fjárhagsuppgjör umfram það sem að ofan greinir, en hann nefnir launagreiðslur, áunninn kaupauka og útlagðan lögmannskostnað. Segir hann sakomulagið að öðru leyti trúnaðarmál. Kemur þá farm að hann hafi undanfarið búið í Sviss ásamt fjölskyldu sinni og sinni þaðan fjárfestingum þar í landi og á Íslandi. Einnig hafi hann sinnt ráðgjafaverkefnum fyrir alþjóðleg fyrirtæki í lyfjaiðnaði og sjávarútvegi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert