Bjartsýnn á að frumvarpið verði samþykkt

Jón Gunnarsson vonast til þess að mæla fyrir frumvarpinu í …
Jón Gunnarsson vonast til þess að mæla fyrir frumvarpinu í þinginu í næstu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra á von á því að mæla fyrir nýju frumvarpi um breytingar á lögreglulögum á Alþingi í næstu viku.

Þingflokkarnir fá væntanlega frumvarpið til sín í vikunni en frumvarpið var tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi í morgun. 

„Ég geri ráð fyrir því og vonast til þess að geta mælt fyrir frumvarpinu í næstu viku. Þetta mál hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma og var í samráðsgátt stjórnvalda í mars ef ég man rétt,“ segir Jón og spurður um hvernig hann meti landslagið í þinginu gagnvart málinu segist hann vera bjartsýnn. 

„Ég er bara nokkuð bjartsýnn. Ábyrgð þingmanna er auðvitað mikil þegar kemur að þessum málaflokkum. Við höfum verið vöruð við þessari þróun í langan tíma. Lögreglan hefur gefið út skýrslur og varað við þeirri þróun sem er að eiga sér stað í skipulagðri brotastarfsemi í landinu. Það ástand er algerlega óviðunandi. Ég hef notað þetta ár til að fara vel yfir starfsemi lögreglu, til dæmis með starfshópi sem Vilhjálmur Árnason alþingismaður leiddi ásamt lögreglustjórunum. Í þeirri vinnu komu fram ýmsar hugmyndir um aukið samstarf milli lögregluembætta og ákveðnar skipulagsbreytingar sem við verðum að fara í. Á grundvelli þess átaks sem ég hef verið að boða í þessari baráttu getum við rökstutt aukið fjármagn til löggæslunnar, og reyndar fleiri málaflokka sem undir ráðuneytið heyra. Ég geri mér vonir um að umtalsverðar breytingar verði á þessum málaflokkum, nú fyrir aðra umræðu fjárlaga, miðað við fyrirliggjandi frumvarp.“

Innra eftirlit búið til hjá lögreglunni

Jón segir að aðalatriði frumvarpsins séu annars vegar auknar rannsóknarheimildir lögreglu og hins vegar aukið eftirlit með störfum lögreglu. 

„Við erum að gefa lögreglu ákveðnar heimildir sem eru í ætt við það sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar. En við göngum þó ekki nærri eins langt, því nágrannalöndin eru með leyniþjónustu og öðruvísi starfsemi en við erum með hér. Þar eru heimildirnar miklu víðtækari. Frumvarpið snýr fyrst og fremst að þessum brotaflokkum sem falla undir skipulagða brotastarfsemi og ógn gegn öryggi ríkisins eða hryðjuverkastarfsemi. Slíkir brotaflokkar virða auðvitað engin landamæri og krefjast mikils samstarfs við erlend lögregluyfirvöld. Þá gengur þetta út á að geta unnið með upplýsingar frá öðrum lögregluyfirvöldum og veitt þeim upplýsingar til baka. Þegar um er að ræða eftirlit og eftirfylgni með einstaklingum sem lögreglan hefur upplýsingar um að séu tengdir skipulagðri brotastarfsemi án þess að það sé hengt við einstök afbrotamál. Breytingarnar í þessum efnum eru ekki róttækar en ramma frekar inn hvað lögreglan getur gert,“ segir Jón og segir aukið eftirlit með störfum lögreglunnar einnig vera stórt mál. 

Lögreglan hefur haft mörgum hnöppum að hneppa í haust. Upplýsingafundur …
Lögreglan hefur haft mörgum hnöppum að hneppa í haust. Upplýsingafundur vegna aðgerða lögreglu í september vakti geysilega athygli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þá erum við að styrkja verulega starfsemi eftirlitsnefndar með störfum lögreglu. Þar fjölgum við í stjórn úr þremur í fimm og fjölgum starfsmönnum. Formaður nefndarinnar verður jafnframt starfsmaður nefndarinnar sem er breyting. Nefndin er skipuð af ýmsum aðilum og starfar óháð lögreglunni. Við erum einnig að setja á embætti innra eftirlits lögreglu og lögreglu ber alltaf að tilkynna þeim aðila þegar þessar heimildir eru notaðar sem lúta að ákvörðun lögreglustjóra. Einstaka lögreglumenn geta ekki tekið þessar ákvarðanir heldur byggist það alltaf á ákvörðun lögreglustjóra eða þess sem lögreglustjóri veitir heimild til að taka slíka ákvörðun. Þá ber að tilkynna það strax til innra eftirlitsins og til eftirlitsnefndarinnar eins fljótt og verða mál. Eftirlitsnefndin mun síðan á hverju ári, og oftar ef þörf krefur, gefa stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins upplýsingar um gang mála þótt ekki verði beinlínis farið í einstök mál,“ segir Jón enn fremur í samtali við mbl.is.mbl.is