Gæsluvarðhaldsfangar aldrei fleiri

Fangaklefi á Hólmsheiði.
Fangaklefi á Hólmsheiði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um þrefalt fleiri sitja nú í gæsluvarðhaldi en almennt gengur og gerist. Þetta segir Páll Egill Winkel, fangelsismálastjóri. Nú séu gæsluvarðhaldsfangarnir 60 talsins en að jafnaði séu þeir um 20. Þetta er metfjöldi hér á landi til þessa.

Hann segir þennan mikla fjölda stafa af því að á síðustu vikum hafi komið upp nokkur stór mál; fíkniefnamál, ofbeldismál og nú síðast árásin sem átti sér stað á skemmtistaðnum Bankastræti Club síðastliðinn fimmtudag. Hann segir að fangelsiskerfið ætti í erfiðleikum ef fleiri stór mál kæmu upp núna.

„Það er auðvitað gríðarlega mikið álag að vera með 15 einangrunarfanga. Þetta kallar á meiri mannafla og skipulögð vinnubrögð. Því þarna þarf að tryggja rannsóknarhagsmuni, að fangarnir hittist ekki en þó að réttinda þeirra til útivistar sé gætt. Þetta er býsna flókið en gengur upp,“ segir Páll.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/​Hari

„Þetta er fólk á aldrinum 19 ára og upp úr, þetta eru Íslendingar og útlendingar, konur og karlar, fatlaðir og ófatlaðir, meðal annars einn blindur einstaklingur.“

Flestir fangarnir eru vistaðir á Hólmsheiði en nokkra hefur þurft að flytja á Litla-Hraun. Páll segir að hönnunin á húsnæðinu á Hólmsheiði hafi reynst vel í þessu ástandi, þar séu rými sem bæði megi nota í einangrun og venjulega afplánun. Þá hrósar hann samstarfsfólki sínu sem hann segir sannarlega starfinu vaxið.

Hann spáir því að ástandið vari í nokkra daga í viðbót en vonast til að það verði ekki mikið lengur en það. „Þetta reynir gríðarlega á kerfið. Þetta er á sama tíma og við erum að reyna að fækka tímabundið í fangelsunum til þess að geta unnið innan þeirra fjárheimilda sem við eigum að vinna eftir.“

Leitað fjögurra til viðbótar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar fjögurra sem tengjast Bankastrætismálinu með einum eða öðrum hætti. Þá hafa sumir þeirra grunuðu flúið land en ekki enn hefur komið til þess að lögregla leiti aðstoðar erlendra lögregluyfirvalda, að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfir­lögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Staðfestir hann einnig að einhverjir þeirra grunuðu hafi starfað sem dyraverðir. Inntur eftir þjóðerni þeirra sem hlut eiga að málinu kveðst hann ekki vilja tjá sig um það. „Það er nokkuð sem ég hef ekki viljað fara út í.“ Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist í samtali við Morgunblaðið ekki hafa upplýsingar um það hvort þeir sem taldir eru hafa flúið land séu íslenskir ríkisborgarar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert