Skjálfti af stærð 3,9 í Mýrdalsjökli

Jarðskjálfti af stærðinni 3,9 mældist í Mýrdalsjökli laust fyrir klukkan átta í kvöld. Tveir aðrir skjálftar yfir þremur að stærð hafa fylgt í kjölfarið, sá fyrri 3,8 klukkan 20.07 og sá seinni 3,5 að stærð klukkan 20.11. Þetta eru stærstu skjálftar sem hafa mælst síðan í júlí á árinu og fundust þeir í Skaftártungu.

Þá var einn skjálfti af stærð 2,8 klukkan 19.56 og tveir skjálftar 2,5 að stærð klukkan 20.09 og strax aftur klukkan 20.10.

Þetta eru yfirfarnar niðurstöður Veðurstofu Íslands. 

Skjálftarnir eru grunnir og staðsettir austarlega í Kötluöskjunni en í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að skjálftar séu algengir í Kötluöskjunni. Töluverð skjálftavirkni hefur verið í ár samanborið við árin á undan, en er þó minni en virknin á árunum 2016 til 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert