Eldvarnir á heimilum í Reykjavík lakari en á landsbyggðinni

Ein umfangmesta rýmingaræfing sem Slökkviliðið á Akureyri hefur ráðist í …
Ein umfangmesta rýmingaræfing sem Slökkviliðið á Akureyri hefur ráðist í fer fram í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dag hefur slökkvilið Akureyrar þátttöku í Eldvarnaátaki Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna með umfangsmestu rýmingaræfingu sem Slökkvilið Akureyrar hefur ráðist í. Í nýjustu könnun Gallup sýnir að eldvarnir á heimilum í Reykjavík eru mun lakari en á heimilum utan höfuðborgarsvæðisins. 

Eldvarnarátakið er árlegt og segir Gunnar Rúnar Ólafsson varaslökkviliðsstjóri á Akureyri að slökkviliðsmenn finni að átakið sé að skila árangri á milli ára. Hann segir börnin vera öflugust í að tryggja að brunavarnir séu í lagi á heimilum.

„Þetta eru fyrstu dagarnir í átakinu á landsvísu þannig við ætlum að byrja átakið með smá stæl. Átakið er árlegt og fer fram síðustu vikuna fyrir fyrsta í aðventu þar sem farið er yfir eldvarnir heimilanna fyrir jólin og fólk minnt á að gæta að eldvörnum. Við finnum greinilegan mun og ef við tökum nokkur ár þá er þetta alveg klárlega að skila árangri. Börnin eru öflugust í þessu, þau fara heim til sín og gera kröfur um að farið sé yfir þessi mál."

Auðveldara að koma skilaboðum til skila í minni bæjarfélögum

Í nýjustu könnun Gallup sýnir að eldvarnir á heimilum í Reykjavík eru mun lakari en á heimilum utan höfuðborgarsvæðisins. Gunnar segir mögulegt að munurinn liggi í því að auðveldara sé að koma skilaboðum til skila í minni bæjarfélögum.

„Þetta eru minni samfélög og kannski auðveldara fyrir okkur minni slökkviliðin að ná til allra og þar af leiðandi eru kannski fleiri sem lagfæra hlutina hjá sér. Þetta er auðvitað svo mikill fjöldi fólks í Reykjavík og erfiðara að ná til allra. Í minni bæjarfélögum er auðveldara að koma hlutum til skila.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert