Enginn skortur á tamoxifen-lyfjum

mbl.is/Sverrir

„Þetta er gamalt lyf sem er mikið notað enn, sérstaklega við brjóstakrabbameinum sérstaklega hjá yngri konum, en það hefur verið þannig að lyfið sem er með markaðsleyfi hér á Íslandi hefur stundum verið ófáanlegt og þá hefur þurft að flytja inn frá öðrum framleiðanda,“ segir Agnes Smáradóttir yfirlæknir lyflækninga á krabbameinsdeild Landspítala um lyfið tamoxifen.

Þær fregnir höfðu borist mbl.is að lyfið hefði ekki verið fáanlegt frá því í maí á síðasta ári, en Agnes segir það ekki standast, því málið sé aðeins flóknara en það.

Vandræði með lyfseðla

„Það sem flækir stöðuna er að þegar lyfið sem hefur markaðsleyfi á Íslandi hefur verið ófáanlegt, og sama lyf er flutt inn frá öðrum framleiðanda, þá þarf að gera nýjan lyfseðil, svokallaðan undanþágulyfseðil,“ segir Agnes.

mbl.is

„Þá hafa konur stundum fengið þau svör í apótekinu að þetta lyf sé ekki til og ekki sagt frá því að sama lyf er til frá öðrum framleiðanda, en lyfseðill þeirra sem er virkur nær ekki yfir það lyf.“

Hún segir að það sé alltaf séð til þess að tamoxifen sé flutt inn á undanþágu þannig að það sé alltaf til. „Lyfið er alltaf fáanlegt, en kannski ekki frá sama framleiðanda, svo það er alls ekki þannig að lyfið hafi ekki verið fáanlegt í hálft ár.“

Agnes segir að lyfið heiti sama nafni en stundum sé skeytt aftan við tamoxifen nafnið mylan eða accord eða lyfið þannig tengt við annan framleiðanda.

Holskefla vegna málsins í haust

„Ég var í samtali við Lyfjastofnun núna í haust því það komu alveg holskefla yfir okkur krabbameinslækna þegar allt í einu er lyfið sem hefur markaðsleyfi ekki til og þá þurfa allar konurnar að fá nýjan lyfseðil. Þetta vekur bara kvíða og konurnar voru að fá þau svör í apótekum að lyfið væri ekki til. Þá fékkst leyfi hjá Lyfjastofnun um að apótekin mættu afgreiða þau tamoxifen-lyf sem væru til, hvort sem þær væru með undanþágulyfseðil eða sinn hefðbundna lyfseðil.“

Hún segir að það hafi aldrei verið skortur á lyfinu, nema kannski í 1-2 daga í mesta lagi, en lyfið sé framleitt af mismunandi framleiðendum og það hafi verið mismunandi reglur um ávísanir á lyfin þar til þessi breyting gekk í gegn í haust.

Alltaf einhverjir sem finna aukaverkanir

- Hvað með aukaverkanir?

„Þetta á alveg að vera sama lyfið þótt það sé frá ólíkum framleiðendum og það er alveg sama virka efnið í þeim, en það er kannski aðeins blæbrigðamunur á lyfjunum milli fyrirtækja sem ætti að vera í algjöru lágmarki. En það er alveg til að einstaklingar finni þennan mun og finni fyrir meiri aukaverkunum af lyfjum frá öðrum framleiðendum.“

- Hafið þið ekkert orðið vör við lyfjaskort vegna stirðari aðfangnakeðja út af ástandinu í heiminum?

„Jú við verðum af og til vör við að lyf séu ekki til. Stundum er hætt að framleiða gömul og ódýr lyf allt í einu og einhver önnur komin í staðinn. Svo geta komið tafir á því að dýr krabbameinslyf komi til landsins. Þetta eru yfirleitt mjög sérhæfð lyf og fáir einstaklingar að nota þau og það er ekki mikill lager af þeim til hérlendis. Það má ekkert mikið út af bera til að það geti myndast skortur á þannig lyfjum. En oftast erum við að tala um mjög stuttan tíma, kannski 1-2 daga, en í undantekningartilvikum hefur það verið lengri tími. Maður hefur vissulega áhyggjur af því, því við erum algjörlega háð því að fá þessi lyf erlendis frá.“

Hún bætir við að birgjar hérlendis hafi ákveðnum skyldum að gegna varðandi lyf og séu yfirleitt fljót að útvega lyf ef skortur er fyrirsjáanlegur. „Það hefur oftast gengið eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert