Gjörólík staða nú og fyrir tveimur árum

Mælar á Seyðisfirði sýna háa grunnvatnsstöðu.
Mælar á Seyðisfirði sýna háa grunnvatnsstöðu. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki lítur út fyrir að grípa þurfi til tímabundinnar rýmingar á Seyðisfirði á næstunni þó ekki sé hægt að útiloka það, að sögn Björns Ingimarssonar, sveitarstjóra Múlaþings. Hann segir samfélagið mun öruggara í dag en fyrir tveimur árum, og að Veðurstofan sé með betri yfirsýn og viðbragðsaðilar betur upplýstir.

Sveitarstjóri og fulltrúar Veðurstofunnar funduðu með íbúum í síðustu viku og fóru yfir stöðuna. 

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands lýsti yfir óvissustigi almannavarna á Austfjörðum vegna skriðuhættu fyrr í dag. 

Mikil úrkoma hefur verið á svæðinu undanfarna daga og sýna mælar á Seyðisfirði og Eskifirði háa grunnvatnsstöðu. Töluverðri rigningu er spáð næstu daga, sérstaklega á morgun og föstudag.

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.
Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings. Ljósmynd/Aðsend

Gjörólík staða

„Við funduðum með íbúum í síðustu viku og fengum sérfræðinga frá Veðurstofunni til að fara yfir og gera grein fyrir þeirri vöktun sem er í gangi. Það er mjög víðtæk og vönduð vinna sem er unnin á þessu svæði. Þetta er gjörólíkt því sem var fyrir tveimur árum þegar við fengum á okkur hamfarirnar. Menn eru mun betur upplýstir í dag og ef menn teldu líkur á skriðum þá væri gripið til rýmingar. Það er ekki verið að gera það,“ segir Björn.

Hann segir þó eðlilegt að óvissustigi hafi verið lýst yfir í ljósi þess að búið er að spá áframhaldandi rigningu næstu daga. 

Ólíklegt að íbúar fari

Tæp tvö ár eru liðin frá því að stórar aurskriður féllu á Seyðisfjörð með tilheyrandi eignatjóni og er óhætt að segja að samfélagið hafi lamast. 

Spurður hvort hann eigi von á að íbúar yfirgefi bæinn tímabundið þar sem búið sé að lýsa yfir óvissustigi, kvaðst sveitarstjórinn ekki eiga von á því.

„Það er náttúrlega töluvert önnur staða á vissum stöðum heldur en var. Þetta er öruggara. En við gerum alltaf ráð fyrir því að á A, B og C svæðinu – að veðurfar geti þróast þannig að það komi til tímabundinnar rýmingar. Það er vitað að það getur komið upp en það sem við leggjum megináherslu á er að það verði gripið til varanlegra varna.“

Að sögn Björns sýnir mat sérfræðinga að hægt sé að verja alla íbúa samfélagsins. Stóra málið núna sé að fjármagna það verkefni „til þess að verja þetta góða svæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert