Lagið klárað í sendiferðabíl í Bandaríkjunum

„Nú þarf ég bara að spýta í lófana og grípa gæsina,“ segist Una Torfa hafa hugsað þegar henni bauðst að gera tónlistarmyndband með Landsbankanum fyrir Airwaves, þar sem tónlistarkonan unga kom fram fyrir fullu húsi fyrr í mánuðnum.

Hún hafi því hringt í kærasta sinn, Haffa, og spurt hvort það væri yfir höfuð hægt að klára lagið á svo stuttum tíma, en þar voru aðeins þrjár vikur í upptökur á myndbandinu.

Haffi, eða Hafsteinn Þráinsson öllu heldur, sem sjálfur er tónlistarmaður og gengur einnig undir nafninu CeaseTone, var þá á leiðinni á tónleikaferðalag um Bandaríkin með Daða Frey aðeins fjórum dögum síðar.

Una var gestur Dagmála í gær, þar sem hún ræddi allt milli himins og jarðar.

„Það var mjög gaman, að bara fá hugmynd, elta hana, …
„Það var mjög gaman, að bara fá hugmynd, elta hana, koma henni í framkvæmd og bara gefa út,“ sagði Una en hún var gestur Dagmála. mbl.is/Ágúst Óliver

„Allt hægt ef viljinn er fyrir hendi“

„Hann segir bara strax: „Jú, það er alveg hægt. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi“,“ segir Una og hlær.

Var því haldið strax í stúdíóið og lagið tekið upp. Það var enginn tími til þess að liggja yfir hlutunum. Að því loknu tók Haffi tölvuna með út og hljóðblandaði lagið í sendiferðabíl í Bandaríkjunum.

Una Torfa ásamt bróður sínum Tuma Torfa á Airwaves í …
Una Torfa ásamt bróður sínum Tuma Torfa á Airwaves í Iðnó fyrr í mánuðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir Una að það að gera hið nýja lag hafi verið skemmtileg og áhugaverð reynsla þar sem fullkomnunaráráttan hrjáði hana í heilt ár fyrir útgáfu hennar fyrstu plötu í sumar.

„Það var mjög gaman að fá hugmynd, elta hana, koma henni í framkvæmd og bara gefa út.“

Segir hún að ferlið hafi verið þægilegra fyrir vikið. „Þetta gerðist eiginlega nógu hratt til þess að ég gæti ekki haft áhyggjur.“

Myndbandið má sjá hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert