„Öll keðjan þarf að virka“

Lögreglustjóri segir knýjandi nauðsyn á að efla lögregluna þar sem …
Lögreglustjóri segir knýjandi nauðsyn á að efla lögregluna þar sem raunfjölgun hafi ekki átt sér stað árum saman þótt fjölgað hafi vegna vinnutímastyttingarinnar. mbl.is/Arnþór

„Við erum í stakk búin til að fást við þetta eins og þetta er núna,“ segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is um válega atburði í miðbæ Reykjavíkur í síðustu viku og hugsanlegt framhald þeirra nú um helgina miðað við umræðu á samfélagsmiðlum.

Væringar af þessari stærðargráðu muni þó reyna verulega á til lengdar, þær krefjist þess að vinnutími fólks sé settur úr skorðum, svo sem með aukavinnu. „Fólkið okkar leggur mjög hart að sér og það er tilbúið að leggjast á árarnir með okkur, en þetta reynir mjög mikið á, þegar svona stórt mál er í gangi, það reynir á allar einingarnar hjá okkur, bæði rannsókn og almenna lögreglu,“ heldur hún áfram.

„Við erum ágætlega búin“

Embætti hennar sé stórt og geti tekist á við stór verkefni, þar að auki sé sérsveitin innan seilingar þar sem sækja megi stuðning er harðnar á dalnum. „Við erum ágætlega búin en eins og við bendum stjórnvöldum á þarf að efla okkur lögregluna og það sýnir sig bara núna. Og eins og nú hefur komið fram [í viðtali við Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjón í gær] höfum við bent á þetta lengi í skýrslum greiningardeildar, þessa þróun erlendis sem gæti komið til okkar og nú hefur það gerst,“ segir Halla.

Hún tekur þó fram að ekki megi gleyma því sem vel er gert. „Við fengum eflingu í rannsókn kynferðisbrota í sumar, sjö stöðugildi, og það byrjaði að skila sér strax. Við vorum með uppsöfnuð mál en með því að efla rannsóknirnar og ákæruvaldið sjáum við mikinn árangur þar, stjórnvöld komu þarna til móts við okkur og við getum þá gert meira, sinnt fleiri verkefnum og aukið málshraðann,“ segir lögreglustjóri.

Innsigli lögreglu á Bankastræti Club eftir að hópur árásarmanna lét …
Innsigli lögreglu á Bankastræti Club eftir að hópur árásarmanna lét þar til skarar skríða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Betur megi þó ef duga skuli og nú sé lag að efla almennu lögregluna, rannsóknarvinnu og það ákæruvald sem lögregla fer með. Öll keðjan þarf að virka til að snúa þessari þróun við og til að við getum verið öruggari. Þetta vinnur sig ekki sjálft.“

Danir framsæknir í forvörnum

Bætir Halla því við að sterkar forvarnir séu annar vettvangur þar sem gera megi betur og lítur þar til Skandinavíu. „Við vorum á fundi þar og þar er mjög mikið unnið í forvörnum sem beinast að ungu fólki. Danir eru til dæmis komnir mjög langt í þessu, að sinna unga fólkinu áður en það er komið á ranga braut og við finnum að í sveitarfélögunum hér er mikið ákall til lögreglu að efla þessa samfélagslöggæslu sem við köllum,“ segir Halla.

Lögreglan er að sögn Höllu vel í stakk búin til …
Lögreglan er að sögn Höllu vel í stakk búin til að sinna sínu þótt vissulega megi efla hana með aðkomu ríkisvaldsins. mbl.is/Ari

Fjöldi lögreglumanna landsins hefur eins og fram kom í viðtali í dag aldrei náð sér á strik eftir bankahrun, þeir eru nálægt 700. Er þetta ekki til baga í stækkandi samfélagi?

„Okkur hefur ekki fjölgað í mörg ár, tölurnar sýna það svart á hvítu, að minnsta kosti ekki hlutfallslega. Hér var gerð vinnutímastytting og þá þurftum við að bæta við, en raunfjölgun, til dæmis hérna á höfuðborgarsvæðinu, hefur ekki verið, heldur hefur farið fækkandi en hitt,“ segir Halla.

Tilmæli sendiráðs Bandaríkjanna

Löggæslustofnanir séu, eins og aðrar ríkisstofnanir, með hagræðingarkröfu og reksturinn sé í skugga þeirrar kröfu þannig að lögreglan sé í raun með 84 prósent í launum. „Þannig að þegar við fáum hagræðingarkröfu þá eru það bara störfin sem þurfa að fara,“ útskýrir hún og bendir á að nú þurfi aðstoð stjórnvalda, hagræðingu og stuðning, málin séu einfaldlega að þróast í þá átt í íslensku samfélagi.

Í dag greindi mbl.is frá því að sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi biðlaði til sinna ríkisborgara að fara að öllu með gát, forðast til dæmis stóra hópa fólks og vera á varðbergi um líf sitt og limi í ljósi atburða í miðbænum. Hvað sýnist Höllu um þá viðvörun?

„Sendiráðið gegnir auðvitað skyldum við sína þegna og þar eru væntanlega vinnureglur um hvað þaðan beri að senda út þegar einhver hætta steðjar að. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er í mjög góðu sambandi við sendiráðin í gegnum utanríkisráðuneytið og það gildir líka um ríkislögreglustjóra,“ svarar Halla. Nú sé lögregla að auka viðbragð sitt og hennar hlutverk sé auðvitað að gæta öryggis íslenskra sem erlendra ríkisborgara.

Lekamálið sorglegt í alla staði

Þá hafa einnig sneisafull fangelsi landsins verið til nýlegrar umræðu í fjölmiðlum. Hefur slíkt ástand áhrif á störf lögreglu?

Kveður Halla lögreglu eiga gott samstarf við yfirvöld fangelsismála. Oft haldist álag hjá lögreglu og fangelsum í hendur, kerfið þurfi ávallt að vera í stakk búið til að taka við. „Og þar gerum við bara eins og við getum,“ segir hún.

Vettvangur atburðar síðustu viku.
Vettvangur atburðar síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglustjóra þykir mjög miður af myndskeið af árásinni í síðustu viku, rannsóknargagn í raun, hafi lekið til fjöl- og samfélagsmiðla. „Í mínum huga er þetta grafalvarlegt mál sem við höfum tekið föstum tökum með því að vísa því til rannsóknar hjá héraðssaksóknara,“ segir Halla, en þar sem málið sé í rannsókn vilji hún lítið tjá sig um það.

„Þetta er bara mjög sorglegt í alla staði,“ segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, að lokum.

mbl.is