Sakar SÍ um skemmdarverkastarfsemi

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stýrivaxtahækkun Seðlabankans í morgun hefur gríðarleg áhrif á kjaraviðræðurnar sem staðið hafa yfir frá því á mánudag hjá ríkissáttasemjara að sögn Vilhjálms Birgissonar formanns Starfsgreinasambandsins. Óvissa er komin upp um framhald viðræðnanna. 

„Það er algjörlega með ólíkindum að Seðlabankinn skuli voga sér að senda þau skilaboð út á meðan við sitjum hér einbeitt í að reyna að ná kjarasamningum og ná  niður verðbólgu og vöxtum að við skulum þá fá þessa rennandi blautu tusku framan í andlitið frá þessum egóistum upp í Seðlabanka,“ sagði Vilhjálmur áður en hann gekk inn á fund samninganefndarinnar með SA í húsnæði Ríkissáttasemjara um kl. 10 í morgun.  

„Það er með ólíkindum að þeir skuli voga sér að gera þetta. Þeir eru nú þegar búnir að þurrka upp allan ávinninginn af því sem við gerðum 2019 og þeir halda þessari skemmdarverkastarfsemi áfram,“ sagði Vilhjálmur.

Vilhjámur sagði ennfremur í samtali við mbl.is fyrir samningafundinn sem átti að hefjast kl. 10 að ákvörðun Seðlabankans muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér og  næstu mínútur muni ráða hvert framhaldið verði.  

„Ég er svo gáttaður á taktleysinu sem er í samfélaginu, þar sem allt snýst orðið um fjármálaöflin en almenningur þarf að blæða. Svona vaxtahækanir hafa gríðarleg áhrif á skuldsett heimili,“ sagði Vilhjálmur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert