Einn af hverjum tíu notar rafhlaupahjól vikulega

Notkun rafhlaupahjóla hefur aukist undanfarin ár og notar nú rúmlega …
Notkun rafhlaupahjóla hefur aukist undanfarin ár og notar nú rúmlega einn þriðji íbúa Reykjavíkur tækin eitthvað og einn tíundi notar þau vikulega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rúmlega þriðjungur Reykvíkinga, 18 ára og eldri, nota rafhlaupahjól eitthvað og hefur þeim fjölgað úr 19% frá því fyrir tveimur árum. Ríflega einn af hverjum tíu notar rafhlaupahjól vikulega eða oftar og 14% til viðbótar nota rafhlaupahjól einu til þrisvar sinnum í mánuði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun Gallup á notkun íbúa borgarinnar á tækjunum.

Mesta notkunin er á meðal fólks á aldrinum 18-34 ára, en fer svo lækkandi, sérstaklega meðal daglegra notenda. Áfram eru þó um 25% fólks á aldrinum 45-54 sem nota slík hjól einu sinni í mánuði eða oftar.

Karlar nota rafhlaupahjól tvöfalt oftar en konur

Þá er notkunin mest meðal íbúa í miðbænum og Vesturbæ, en þar á eftir koma íbúar í Hlíðum og Laugardal. Notendum hefur þá fjölgað talsvert í flestum hverfum. Karlar nota rafhlaupahjólin talsvert meira en konur, en að meðaltali nota þeir slík hjól í 2,9 skipti á mánuði, samanborið við 1,3 skipti hjá konum. Aldursflokkurinn 25-34 ára notar hjólin að meðaltali 4,7 sinnum í mánuði.

Notkun rafmagnshlaupahjóla er mjög sambærilegur eftir menntunarstigi, en er mest meðal þeirra sem eru í millitekjuflokki.

Rafmagnshlaupahjól eru til staðar á 18% heimila í borginni og hefur heimilum þar sem slík tæki eru til staðar fjölgað um sex prósentustig frá því árið 2020.

Mikið notuð á djamminu

Algengast er að rafhlaupahjól séu notuð í ferðir til og frá skemmtistöðum, börum og veitingahúsum, eða í rúmum 47% tilfella. Þær ferðir eru nær eingöngu farnar á leiguhjólum. Næst algengast er að rafhlaupahjól séu notuð til og frá vinnu eða skóla, í naumlega 42% tilfella. Hlutfallslega fleiri nota eigin hjól í þær ferðir eða um 26% eru á eigin rafhlaupahjóli og 74% á leiguhjóli.

Þá var kannað hvort börn á heimilinu notuðu rafhlaupahjól og var niðurstaðan sú að meira en helmingur 13-15 ára unglinga noti slík tæki.

Undir áhrifum í 10% slysa

Samtals um 28% þeirra sem nota rafhlaupahjól hafa lent í óhappi á því, en við síðustu könnun var hlutfallið 12,5%. Í hvorugt skiptið var spurt hvenær óhappið varð og telja því slys sem áttu sér stað fyrir tveimur eða þremur árum með núna.

Aðspurð um síðasta skiptið sem viðkomandi lenti í óhappi segjast 10% þeirra hafa verið undir áhrifum áfengis. Til samanburðar voru um 8% slasaðra eða látinna í umferðarslysum árið 2021 undir áhrifum áfengis eða fíkniefna samkvæmt ársskýrslu Samgöngustofu.

mbl.is