Fundahöld enn í fullum gangi

Frá sáttafundi hjá Ríkissáttasemjara í vikunni.
Frá sáttafundi hjá Ríkissáttasemjara í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búast má því að fundað verði fram á kvöld í húsakynnum ríkissáttasemjara en kjaraviðræður hafa verið á viðkvæmu stigi eins og fram hefur komið eftir vaxtahækkun Seðlabankans í gær. 

Samn­inga­nefnd­ir sam­flots Starfs­greina­sam­bands­fé­lag­anna og versl­un­ar­manna ann­ars veg­ar, og sam­flots iðnaðar- og tækni­fólks hins veg­ar, hafa fundað með Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins hjá Rík­is­sátta­semj­ara í dag.

Í morgun var fundur utan dagskrár ef svo má segja þegar Katrín Jakobsdóttir boðaði aðila vinnumarkaðarins á fund í Stjórnarráðinu. 

Hafa reynt að núllstilla sig í dag

Eftir harkaleg viðbrögð við vaxtahækkun Seðlabanks í gær var talið að sá möguleiki væri fyrir hendi að viðræðum yrði jafnvel slitið í dag. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formaður SGS lýstu allir yfir vonbrigðum með ákvörðun Seðlabankans og ekki síst tímasetninguna. 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Kristján Þórður Snæbjörnsson, forseti …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Kristján Þórður Snæbjörnsson, forseti ASÍ, við komuna á fundinn með Katrínu í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt heimildum mbl.is virðist tónninn í mönnum hafa verið eitthvað mildari í dag. Eftir tíðindi gærdagsins hafa menn reynt að núllstilla sig en halda vinnunni áfram. Fundað hefur verið í flestum herbergjum í húsinu eftir hádegi en framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins fundaði til að mynda eftir hádegið. 

Skammtímasamningur sem millileikur

Þótt viðræður séu eflaust mjög krefjandi þá sjá einhverjir skammtímasamninga sem ágætan millileik í erfiðri stöðu eins og fram hefur komið. Ljóst er að sá möguleiki er alla vega til umræðu, eins og væntanlega fleiri leiðir, og þá sé ekki verið að semja til nokkurra ára. 

„Það er engin launung á því að það hefur verið rætt að gera kjarasamning fram til þarnæstu áramóta eða fram í janúar [2024], og þá erum við fyrst og fremst að horfa til þess að sjá viðbrögð Seðlabankans, verslunar og þjónustu, sveitarfélaga og annarra, sem bera hér líka ríka samfélagslega ábyrgð. Það er ekki hægt að varpa þessari ábyrgð eingöngu yfir á launafólk eins og ætíð er gert. Skammtímasamningur gæti verið skynsamlegur hvað það varðar og þá þarf að sjá hvort þessir aðilar ætli að sýna einhverja ábyrgð á því að draga úr álögum á almenningi,“ sagði Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið fyrr í vikunni. 

mbl.is