„Hvalrekaskattar ekki lausnin“

Ari Fenger formaður Viðskiptaráðs.
Ari Fenger formaður Viðskiptaráðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ari Fenger formaður Viðskiptaráðs Íslands kallaði eftir aðhaldi hjá hinu opinbera í opnunarræðu á fundi viðskiptaráðs í morgun. Hann segir frekari rök þurfa að vera fyrir skattahækkunum á fyrirtæki en þau rök að reksturinn gangi betur í ár en hann gerði fyrir ári síðan. Hann segir jafnframt óvissu í rekstrarumhverfi fyrirtækja ekki hvetja til verðmæta- og nýsköpunar.

„Við sem tölum fyrir atvinnulífið höfum haft áhyggjur af skorti á aðhaldi hjá hinu opinbera. Það er þó rétt að taka fram að við studdum að meginstefnu þær ákvarðanir sem teknar voru í faraldrinum. Þar runnu saman ákvarðanir Seðlabankans um vaxtalækkanir og ríkisstjórnarinnar um aukin útgjöld til almennings og gera fyrirtækjum kleift að standa af sér áfallið,“ segir Ari.

Mikill skortur á aðhaldi 

Mikill skortur er á aðhaldi á fjármunum hins opinbera og ríkisútgjöld halda áfram að aukast. Hann segir réttu leiðina ekki felast í skattahækkunum.

„Þrátt fyrir yfirlýsingar um aðgerðir gegn þenslu halda ríkisútgjöld áfram að aukast. Misræmi í tekjum og útgjöldum er mikið og gatið í ríkisrekstrinum er stórt. Leiðin til að bregðast við þessu eru ekki sértækar skattahækkanir eða hvalrekaskattar á fyrirtæki þegar vel gengur. Óvissa í rekstrarumhverfi fyrirtækja hvetur ekki til verðmætasköpunar eða nýsköpunar,“ segir Ari.

mbl.is