Innflytjendur á Íslandi ríflega 60.000

Til að setja töluna í samhengi, þá eru innflytjendur á …
Til að setja töluna í samhengi, þá eru innflytjendur á Íslandi álíka margir og samanlagður fjöldi íbúa í Kópavogi, Garðabæ og á Seltjarnarnesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innflytjendur á Íslandi voru 61.148 eða 16,3% mannfjöldans þann 1. janúar 2022. Innflytjendum heldur áfram að fjölga og voru þeir 15,5% landsmanna (57.126) í fyrra.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Þar segir, að frá árinu 2012 hafi hlutfallið farið úr 8,0% mannfjöldans upp í 16,3%.

„Innflytjendum af annarri kynslóð fjölgaði einnig á milli ára, voru 6.117 í byrjun árs 2021 en 6.575 1. janúar síðastliðinn. Samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 18% af mannfjöldanum og hafði það hlutfall aldrei verið hærra. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði einnig lítillega á milli ára og voru 7,2% mannfjöldans,“ segir á vef Hagstofunnar. 

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis. Innflytjendur af annarri kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent. Einstaklingur sem fæddist erlendis en á foreldra sem báðir eru fæddir hér á landi telst einnig hafa erlendan bakgrunn.

mbl.is