Strætó gat ekki greitt reikningana sína

Strætó fékk 520 milljóna auka framlag en félagið náði ekki …
Strætó fékk 520 milljóna auka framlag en félagið náði ekki að greiða reikninga í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt að veita Strætó 520 milljóna króna auka framlag á árinu vegna bágrar fjárhagsstöðu félagsins.

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir félagið ekki hafa náð að greiða alla reikningana sína í síðustu viku í fyrsta skiptið en að búið sé að ganga frá greiðslunum í dag. Ekki hafi verið um verulegar fjárhæðir að ræða.

„Sveitarfélögin samþykktu að veita 520 milljóna króna auka framlag á árinu 2022 og það er komið. Það er búið að vinna að því núna síðan í vor fyrir kosningar. Kosningarnar töfðu aðeins framkvæmdina á þessu og afgreiðsluna,“ segir Jóhannes 

„Síðan er búið að samþykkja áætlun Strætó fyrir næsta ár og tryggja þá að Strætó sé greiðsluhæft og rekstrarhæft næstu ár. En svo er einnig í gangi áframhaldandi vinna við að skoða kostnaðinn og tekjumódel Strætó til framtíðar.“

Kostnaðarverðshækkanir og Covid

Tap Strætó fyrstu níu mánuði ársins nam 1.100 milljónum króna en í samþykktri fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 93 milljón króna tapi. Jóhannes segir greinargóðar skýringar að baki þessum mikla mun.

„Skýringin liggur að miklu leyti í því að fyrstu tveir mánuðirnir voru Covid-mánuðir og þá voru tekjurnar 130 milljónum undir. Og svo komu kostnaðarverðshækkanirnar, eins og til dæmis á olíu, þannig það hefur gríðarleg áhrif á rekstur strætó. Plús það að við erum að gjaldfæra 230 milljónir vegna dómsmáls,“ segir Jóhannes. 

Jóhannes segir tap Strætó vegna kostnaðarverðshækkana hafa numið um 400 til 500 milljónum króna.

„Þetta er tíu milljarða rekstur, hvert prósent er ansi mikið og dýrt.“

Vonar að ríkið sjái að sér

Jóhannes segist vona að ríkisstjórnin sjái að sér og styrki almenningssamgöngurnar líkt og stjórnvöld í Norðurlöndunum hafa verið að gera.

„Strætóinn í Ósló hann fær alltaf bættan mismuninn á áætlunartekjum og rauntekjum. Ef við værum þar t.d. værum við búin að fá tvö þúsund milljónir aukalega frá ríki og sveitarfélögum á þessu Covid-tímabili. Í Finnlandi veit ég til þess að þar hefur verið styrkur upp á 28 milljarða á þessum tveimur árum sem Covid hefur staðið. Það er risastór tala í okkar huga en það er miklu stærra fyrirtæki. Ef við værum að miða okkur við það þá værum við alla vega búin að fá þúsund milljónir frá ríkinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert