Tekinn með kókaín í skósólum

Maðurinn kom til landsins með flugi frá Spáni 1. september. …
Maðurinn kom til landsins með flugi frá Spáni 1. september. Hann var með kókín falið í skósólum sem tollverðir fundu við leit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í sjö mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot, en maðurinn var sakfelldur fyrir innflutning á kókaíni. 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákærði manninn, sem er með ríkisfang í Litháen, 7. nóvember fyrir að hafa þann 1. september sl. staðið að innflutningi á samtals 321,89 gr. af kókaíni (að styrkleika 53 - 55% kókaín, sem samsvarar 59 - 62% af kókaínklóríði), ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Maðurinn kom með fíkniefnin til landsins í gegnum flug til Íslands frá  frá Palma de Mallorca á Spáni. Efnin geymdi hann í tveimur pakkningum sem hann faldi í skósólum skópars sem var í ferðatösku sem maðurinn hafði meðferðis þegar hann var stöðvaður í tollhliði í komusal flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 22. nóvember en var birtur í dag, að maðurinn hafi játað sök fyrir dómi. 

Þá kemur fram að maðurinn hafi ekki áður sætt refsingu hér á landi. „Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að um er að ræða innflutning á umtalsverðu magni hættulegra fíkniefna, af þó nokkrum styrkleika, sem ætlað var til söludreifingar hér á landi.“

Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í sjö mánaða fangelsi að frádregnu gæsluvarðhaldi. 

Manninum er enn fremur gert að greiða um 1,2 milljónir í málsvarnarlaun og annan sakarkostnað. Loks voru fíkniefnin gerð upptæk. 

mbl.is