Ákvörðun SGS kom ekki á óvart

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það ekki hafa komið sér á óvart að Starfsgreina sambandið (SGS) hafi ekki slitið viðræðum sínum við Samband atvinnulífsins (SA), líkt og VR gerði í gærkvöldi.  

Ragnar segir þetta hafa legið fyrir í gærkvöldi, SGS og VR séu í raun ekki á sama stað í viðræðunum.

Spurður hvernig félagsmenn hafi tekið í ákvörðun VR að slíta viðræðum við SA, segir Ragnar að ekki sé búið að ræða við félagsmenn með formlegum hætti en hann hafi fengið fjölda skilaboða.

„Samninganefndin hittist í morgun klukkan níu og fundaði. Það er alger einhugur í hópnum og alger samstaða um þessa leið,“ segir hann.

Hver eru næstu skref?

„Ég reikna með að ríkissáttarsemjari muni boða okkar til fundar eftir helgi og fara yfir stöðuna. Það sem að við munum gera er fyrst og fremst að upplýsa okkar félagsfólk um stöðuna sem við erum í.

Mat okkar á getu fyrirtækjanna í að greiða hér myndarlegar launahækkanir og svo framvegis og í rauninni að koma fólki í skilning um það hverjir eru að græða á þessu ástandi og hverjir eru að tapa: Það er fólkið í landinu og okkar félagsfólk.“

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS.
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verkefnið það sama

Ragnar reiknar með því að boðað verði til fundar í næstu viku þar sem farið verður yfir stöðuna með félagsfólki VR.

Ragnar segir að ekki sé orðið tímabært að ræða verkföll en í samtali við mbl.is í morgun sló Ragnar það ekki út af borðinu að gripið verði til verkfallsaðgerða fyrir áramót.

„Verkefnið er hið sama. Við erum að reyna ná góðum kjarasamningi fyrir okkar fólk og við munum halda því áfram eins lengi og við höfum viðmælendur.“

Aldrei meira traust

Hann segir að samband sitt og Vilhjálms Birgissonar, formanns SGS, mjög gott og annarra í verkalýðshreyfingunni.

„Við erum öll mjög samstíga í því sem við erum að gera og höldum hvor öðrum upplýstum. Ég er búinn að vera síðan 2009 og ég held að sambandið milli landssambanda og félaga hafi sjaldan verið traustara og betra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert