Árborg mun taka á móti allt að 100 flóttamönnum

Við undirritunina á Selfossi.
Við undirritunina á Selfossi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Sveitarfélagið Árborg í samstarfi við stjórnvöld mun taka á móti allt að hundrað flóttamönnum fram til 31. desember 2023.

Samningur þess efnis var undirritaður í dag af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Fjólu Steindóru Kristinsdóttur, bæjarstóra Árborgar og Nichole Leigh Mosty, forstöðukonu Fjölmenningarseturs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Áhersla á virka þátttöku í samfélaginu

Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á Íslandi en markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að.

Áhersla verður lögð á nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að fólk fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, samfélagsfræðslu og námi, þ.m.t. íslenskunámi.

„Árborg hefur síðastliðin ár verið móttökusveitarfélag fyrir flóttafólk og meðal annars tekið á móti flóttamönnum sem stjórnvöld hafa boðið til landsins, auk þess að vera þátttakendur í tilraunaverkefni um samræmda móttöku flóttafólks sem hófst árið 2021. Flóttafólk sem sest hefur að í Árborg hefur komið frá Afganistan, Íran, Sýrlandi, Úkraínu og Venesúela,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina