Bæjarbúum boðið í jólahlaðborð

Félagar í Rótarýklúbbi Sauðárkróks við íþróttahúsið fyrir síðasta jólahlaðborð, sem …
Félagar í Rótarýklúbbi Sauðárkróks við íþróttahúsið fyrir síðasta jólahlaðborð, sem haldið var í upphafi aðventu 2019. Síðan þá hefur Covid-19 komið í veg fyrir veisluhöldin, þar til nú. mbl.is

Rótarýklúbbur Sauðárkróks fer á morgun, laugardag, aftur af stað með sitt stærsta samfélagsverkefni eftir Covid-hlé síðustu tveggja ára. Klúbburinn býður öllum gestum og gangandi til ókeypis jólahlaðborðs í íþróttahúsinu á Sauðárkróki og þar verður ekkert til sparað, eins og það er orðað í fréttatilkynningu. Forréttir, aðalréttir og meðlæti ásamt drykkjum, sem fyrirtæki í Skagafirði leggja til.

„Við vitum að það er ekki á allra færi að fara á jólahlaðborð enda yfirleitt ekki ódýrt. Hjá okkur er þetta ókeypis og allir geta gert sér dagamun saman,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, einn félaga Rótarýklúbbsins, við mbl.is.

Hlaðborðið verður opið frá kl. 12-14 á morgun. Aðgangur er ókeypis en við innganginn verður söfnunarkassi. Afrakstur hans rennur beint til góðgerðarmála í Skagafirði.

mbl.is